Síðustu Evrópuvélarnar í loftið á næstu klukkustund
– Vel gekk að greiða úr biðröðum í flugstöðinni
Vel hefur gengið koma farþegum í flug til Evrópu eftir að starfsemi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hófst að nýju kl. 09 í morgun. Fjölmenni var í innritunarsal flugstöðvarinnar og langar biðraðir.
Kveikt var á farangursfæriböndum kl. 09 og þá strax komst mikil hreyfing á biðraðir þegar fólk gat skilað af sér töskum en flestir farþegar notast við sjálfsafgreiðslukassa í flugstöðinni fyrir innritun.
Eftir að fólk hafði skilað af sér ferðatöskum tók næsta röð við en hún var í vopnaleit á 2. hæð flugstöðvarinnar. Náði röðin niður stigann á fyrstu hæðina.
Flug frá Bandaríkjunum lenti einnig á Keflavíkurflugvelli stax kl. 09 og því far fjölmennt í flugstöðinni á tíunda tímanum.
Gert var ráð fyrir því í morgun að síðustu vélarnar í morgunfluginu til Evrópu færu í loftið nú á tólfta tímanum. Flugfélögin gera ráð fyrir að allt flug verði komið á áætlun á einum sólarhring.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í morgun. VF-myndir: Hilmar Bragi