Síðustu dagar Rockville
-Eitt helsta kennileiti Suðurnesja hverfur innan tíðar. Rockville, húsin með hvítu kúlunum eins og einhver myndi orða það, verður rifið í ár en þessi staður á sér langa og á tíðum skemmtilega sögu. Blaðamaður Víkurfrétta fjallar um sögu Rockville, skin og skúrir og merkingu svæðisins fyrir þá sem þar hafa dvalið.
Það var í október 1953 sem 932. ratsjársveit bandaríska flughersins kom sér fyrir í nýbyggðri ratsjársstöð sem nefnd var Rockville. Stöðin, sem byggð var af Varnarliði á Íslandi, eins og það var kallað, var ein af fjórum stöðvum sem byggðar voru. Ein var á Stokksnesi, önnur á Langanesi og sú þriðja á Straumnessfjalli en Rockville var samt sem áður miðstöð loftvarna á Íslandi.
Rockville var með sitt eigið orkuver og var stöðin þess vegna sjálfbær hvað varðar rafmagn. Á svæðinu voru u.þ.b. 20 hermannaskálar, matsalur, pósthús, íþróttasalur, bar, verslanir, bíósalur og kapella. Starfsmenn Rockville voru um það bil tvö hundruð talsins. Stór hluti þeirra bjó á vistinni í Rockville en fjölskyldufólkið bjó á Keflavíkurflugvelli.
Vökul augu á Miðnesheiði
Rockville gegndi mikilvægu hlutverki í kalda stríðinu en þá fylgdust liðsmenn ratsjársveitarinnar reglulega með ferðum sovéskra herflugvéla hér við land og beindu orrustuflugvélum varnarliðsins í veg fyrir þær til eftirlits.
Árið 1961 urðu breytingar á starfsemi varnarliðsins í kjölfar þess að sjóherinn tók yfir starfsemi hersins á Keflavíkurflugvelli en þar hafði flugherinn ráðið ríkjum. Ratsjársveitin hélt þó áfram venjubundni starfsemi í Rockville.
Ný ratsjárstöð var tekin í notkun á Miðnesheiði í nóvember árið 1992 en í kjölfarið minnkaði starfsemin í Rockville og færðist hún hægt og rólega upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeirra biðu ný húsakynni. Starfsmenn sem sváfu á vistinni í Rockville hófu að flytja sig á brott árið 1996 og var húsakynnum og starfsemi hætt jafnt og þétt það ár. Ekki fóru þó allir því starfsmenn tölvuviðhalds hjá ratsjársveitinni sátu vaktir í Rockville ef eitthvað af þeim búnaði sem þar var þyrfti að nýta. Aðrir í deildinni hófu að flytja burt tæki og húsgögn.
Íslenskir verktakar fluttu ýmis fjarskiptatæki fyrir Bandaríkjaher á þeim tíma og kláruðust þeir flutningar í janúar 1998. Þá höfðu allir í 932. ratsjársveit bandaríska flughersins yfirgefið Rockville sem breyttist, eftir 44 ára starfsemi, í draugabæ.
Vopnin og Biblían
Fljótlega eftir að herinn hafði yfirgefið Rockville voru nokkrir sem sýndu svæðinu áhuga en þar á meðal voru forsvarsmenn meðferðarstöðvarinnar Byrgisins. Einu ári síðar eða árið 1999, eftir viðræður forsvarsmanna Byrgisins og Utanríkisráðuneytisins, voru undirritaðir samningar um afnot Byrgisins af mannvirkjum í Rockville.
Þessi fyrrum ratsjárstöð Bandaríkjahers var orðin að heimili kristilegs líknarfélags. Þar sem áður fyrr voru hermenn með vopn voru nú áfengis- og fíkniefnaneytendur með biblíu.
En hvernig var reynsla þeirra sem þar dvöldu en báru ekki fána Bandaríkjanna?
„Rockville bjargaði lífi mínu“
Magnús Svavar Emilsson var einn af þeim sem leit á Rockville sem heimili sitt. Víkurfréttir tóku viðtal við hann árið 2002 en þá var hann yfirmatsveinn Byrgisins. Magnús hefur barist við áfengisdjöfulinn meirihlutann af lífsleið sinni en hann er 52 ára í dag. Víkurfréttir höfðu samband við Magnús á dögunum en hann hefur sagt skilið við áfengið fyrir fullt og allt. „Rockville bjargaði lífi mínu og þetta var líka besti staðurinn sem ég hef verið á,“ sagði Magnús. „Það var erfitt að yfirgefa Rockville sérstaklega þar sem að við unnum svo mikið sjálfir að breytingum og lagfæringum.“
Magnús sagðist ekki hafa orðið var við hermenn á meðan að hann var á Rockville: „Þeir létu okkur alveg í friði og í raun og veru var allt látið í friði í Rockville á meðan við áttum heima þarna.“
Að sögn Magnúsar bjargaði Rockville ekki aðeins lífi hans heldur hundruðum mannslífa. „Það væru fleiri af okkur farnir yfir móðuna miklu ef við hefðum ekki Rockville á sínum tíma, þetta var besti staðurinn.“
En Magnús ásamt u.þ.b. 100 öðrum vistmönnum urðu frá að hverfa árið 2003 þegar Byrgið fékk ekki áframhaldandi samning um afnot af svæðinu. Magnús sagði það dapurlegt að yfirgefa staðinn sem bjargaði lífi hans. „Það var dapurlegt, mjög dapurlegt.“
Magnús heimsótti Rockville í fyrra en í þeirri ferð vöknuðu skemmtilegar minningar um hann og aðra vistmenn Byrgisins en það sem kastaði skugga á minningar hans var útlit staðarins. „Það er sorglegt að vita til þess hvernig þetta er farið í dag,“ sagði Magnús.
100 milljónir faldar í Rockville
Þegar Byrgið yfirgaf Rockville fyrir fullt og allt lokaði Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hliðinu á táknrænan hátt. Hann henti lyklinum að hliði Rockville út í móa og sagði að þarna hefðu farið 100 milljónir fyrir lítið en þá vitnaði Guðmundur til þess kostnaðar við uppbyggingu Rockville fyrir starfsemi Byrgisins.
Leitað var eftir því hjá Guðmundi Jónssyni að lýsa sinni reynslu af Rockville en það tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfir tæpt mánaðarskeið.
Draugarbær enn á ný
Ekki litu þó allir á Rockville sömu augum og vistmenn Byrgisins. Fyrir marga var þetta ágætur staður til að svala skemmdarfíkn, sérstaklega þegar Byrgið var farið og Rockville hóf sitt annað draugatímabil. Rockville var lagt í rúst á aðeins nokkrum dögum. Það sem áður tók mánuði að byggja upp og lagfæra tók aðeins nokkra daga að eyðileggja. Ungmenni vöndu ferðir sínar að gömlu ratsjárstöðinni og brutu rúður, spenntu upp hurðir og kveiktu í allskyns munum sem skildir voru eftir.
Svæðið sem eitt sinn bjargaði mannslífum er nú orðinn höfuðverkur hersins og lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Útköll vegna skemmdarverka, mannaferða og annarra verkefna eru þó nokkur. Það sem af er á þessu ári hafa 9 mál komið upp, 8 mannaferðir og einn bruni sem Víkurfréttir greindu frá.
Rockville hverfur
Heilbrigðisyfirvöld og aðrir hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar slysahættu sem stafar af Rockville en auðveldur aðgangur er að svæðinu. Bandaríkjaher hefur reynt að fjármagna rif Rockville í nokkur ár og virðist það verkefni vera á enda en útboð vegna niðurrifsins er lokið.
Rockville sem gegnt hefur hinum ýmsu hlutverkum í gegnum tíðina þ.á.m. verndunar lands og þjóðar og mannúðarstörfum verður horfið af Miðnesheiðinni í ár eftir 52 ára veru á Suðurnesjum.
Texti og myndir: [email protected]
Það var í október 1953 sem 932. ratsjársveit bandaríska flughersins kom sér fyrir í nýbyggðri ratsjársstöð sem nefnd var Rockville. Stöðin, sem byggð var af Varnarliði á Íslandi, eins og það var kallað, var ein af fjórum stöðvum sem byggðar voru. Ein var á Stokksnesi, önnur á Langanesi og sú þriðja á Straumnessfjalli en Rockville var samt sem áður miðstöð loftvarna á Íslandi.
Rockville var með sitt eigið orkuver og var stöðin þess vegna sjálfbær hvað varðar rafmagn. Á svæðinu voru u.þ.b. 20 hermannaskálar, matsalur, pósthús, íþróttasalur, bar, verslanir, bíósalur og kapella. Starfsmenn Rockville voru um það bil tvö hundruð talsins. Stór hluti þeirra bjó á vistinni í Rockville en fjölskyldufólkið bjó á Keflavíkurflugvelli.
Vökul augu á Miðnesheiði
Rockville gegndi mikilvægu hlutverki í kalda stríðinu en þá fylgdust liðsmenn ratsjársveitarinnar reglulega með ferðum sovéskra herflugvéla hér við land og beindu orrustuflugvélum varnarliðsins í veg fyrir þær til eftirlits.
Árið 1961 urðu breytingar á starfsemi varnarliðsins í kjölfar þess að sjóherinn tók yfir starfsemi hersins á Keflavíkurflugvelli en þar hafði flugherinn ráðið ríkjum. Ratsjársveitin hélt þó áfram venjubundni starfsemi í Rockville.
Ný ratsjárstöð var tekin í notkun á Miðnesheiði í nóvember árið 1992 en í kjölfarið minnkaði starfsemin í Rockville og færðist hún hægt og rólega upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeirra biðu ný húsakynni. Starfsmenn sem sváfu á vistinni í Rockville hófu að flytja sig á brott árið 1996 og var húsakynnum og starfsemi hætt jafnt og þétt það ár. Ekki fóru þó allir því starfsmenn tölvuviðhalds hjá ratsjársveitinni sátu vaktir í Rockville ef eitthvað af þeim búnaði sem þar var þyrfti að nýta. Aðrir í deildinni hófu að flytja burt tæki og húsgögn.
Íslenskir verktakar fluttu ýmis fjarskiptatæki fyrir Bandaríkjaher á þeim tíma og kláruðust þeir flutningar í janúar 1998. Þá höfðu allir í 932. ratsjársveit bandaríska flughersins yfirgefið Rockville sem breyttist, eftir 44 ára starfsemi, í draugabæ.
Vopnin og Biblían
Fljótlega eftir að herinn hafði yfirgefið Rockville voru nokkrir sem sýndu svæðinu áhuga en þar á meðal voru forsvarsmenn meðferðarstöðvarinnar Byrgisins. Einu ári síðar eða árið 1999, eftir viðræður forsvarsmanna Byrgisins og Utanríkisráðuneytisins, voru undirritaðir samningar um afnot Byrgisins af mannvirkjum í Rockville.
Þessi fyrrum ratsjárstöð Bandaríkjahers var orðin að heimili kristilegs líknarfélags. Þar sem áður fyrr voru hermenn með vopn voru nú áfengis- og fíkniefnaneytendur með biblíu.
En hvernig var reynsla þeirra sem þar dvöldu en báru ekki fána Bandaríkjanna?
„Rockville bjargaði lífi mínu“
Magnús Svavar Emilsson var einn af þeim sem leit á Rockville sem heimili sitt. Víkurfréttir tóku viðtal við hann árið 2002 en þá var hann yfirmatsveinn Byrgisins. Magnús hefur barist við áfengisdjöfulinn meirihlutann af lífsleið sinni en hann er 52 ára í dag. Víkurfréttir höfðu samband við Magnús á dögunum en hann hefur sagt skilið við áfengið fyrir fullt og allt. „Rockville bjargaði lífi mínu og þetta var líka besti staðurinn sem ég hef verið á,“ sagði Magnús. „Það var erfitt að yfirgefa Rockville sérstaklega þar sem að við unnum svo mikið sjálfir að breytingum og lagfæringum.“
Magnús sagðist ekki hafa orðið var við hermenn á meðan að hann var á Rockville: „Þeir létu okkur alveg í friði og í raun og veru var allt látið í friði í Rockville á meðan við áttum heima þarna.“
Að sögn Magnúsar bjargaði Rockville ekki aðeins lífi hans heldur hundruðum mannslífa. „Það væru fleiri af okkur farnir yfir móðuna miklu ef við hefðum ekki Rockville á sínum tíma, þetta var besti staðurinn.“
En Magnús ásamt u.þ.b. 100 öðrum vistmönnum urðu frá að hverfa árið 2003 þegar Byrgið fékk ekki áframhaldandi samning um afnot af svæðinu. Magnús sagði það dapurlegt að yfirgefa staðinn sem bjargaði lífi hans. „Það var dapurlegt, mjög dapurlegt.“
Magnús heimsótti Rockville í fyrra en í þeirri ferð vöknuðu skemmtilegar minningar um hann og aðra vistmenn Byrgisins en það sem kastaði skugga á minningar hans var útlit staðarins. „Það er sorglegt að vita til þess hvernig þetta er farið í dag,“ sagði Magnús.
100 milljónir faldar í Rockville
Þegar Byrgið yfirgaf Rockville fyrir fullt og allt lokaði Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hliðinu á táknrænan hátt. Hann henti lyklinum að hliði Rockville út í móa og sagði að þarna hefðu farið 100 milljónir fyrir lítið en þá vitnaði Guðmundur til þess kostnaðar við uppbyggingu Rockville fyrir starfsemi Byrgisins.
Leitað var eftir því hjá Guðmundi Jónssyni að lýsa sinni reynslu af Rockville en það tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfir tæpt mánaðarskeið.
Draugarbær enn á ný
Ekki litu þó allir á Rockville sömu augum og vistmenn Byrgisins. Fyrir marga var þetta ágætur staður til að svala skemmdarfíkn, sérstaklega þegar Byrgið var farið og Rockville hóf sitt annað draugatímabil. Rockville var lagt í rúst á aðeins nokkrum dögum. Það sem áður tók mánuði að byggja upp og lagfæra tók aðeins nokkra daga að eyðileggja. Ungmenni vöndu ferðir sínar að gömlu ratsjárstöðinni og brutu rúður, spenntu upp hurðir og kveiktu í allskyns munum sem skildir voru eftir.
Svæðið sem eitt sinn bjargaði mannslífum er nú orðinn höfuðverkur hersins og lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Útköll vegna skemmdarverka, mannaferða og annarra verkefna eru þó nokkur. Það sem af er á þessu ári hafa 9 mál komið upp, 8 mannaferðir og einn bruni sem Víkurfréttir greindu frá.
Rockville hverfur
Heilbrigðisyfirvöld og aðrir hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar slysahættu sem stafar af Rockville en auðveldur aðgangur er að svæðinu. Bandaríkjaher hefur reynt að fjármagna rif Rockville í nokkur ár og virðist það verkefni vera á enda en útboð vegna niðurrifsins er lokið.
Rockville sem gegnt hefur hinum ýmsu hlutverkum í gegnum tíðina þ.á.m. verndunar lands og þjóðar og mannúðarstörfum verður horfið af Miðnesheiðinni í ár eftir 52 ára veru á Suðurnesjum.
Texti og myndir: [email protected]