Síðasti spölur Tana í grafreit að Skálum á Langanesi
Síðasta ósk Tana, Jónatans Jóhanns Stefánssonar, var uppfyllt í gær. Það voru félagar Tana, þeir Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Maggi El, Steingrímur J. Sigfússon og Kristján Valur Ingólfsson biskup emeritus sem fluttu duftker með jarðneskum leifum hans í grafreit á Skálum á Langanesi. Hann vildi hvíla hjá afa sínum Jóhanni Stefánssyni og hann er því kominn heim þar sem amma og aðrir ættingjar hvíla.
„Við komum keri hans fyrir í leiði afa hans og settum upp myndarlegan kross með áletrun,“ segir Ásmundur í færslu á fésbókinni.
Það var mikið ferðalag norður á Langanes en hópurinn hittist hjá Steingrími J. á Gunnarsstöðum í hressingu áður en lagt var í tveggja tíma akstur að Skálum og svo í tveggja kílómetra göngu að grafreit sem stendur í fallegri hlíð við þverhnípt bjargið þar sem útsýnið er magnað yfir Skála, haf og land.
„Við tókum allir þátt í að grafa litla gröf í leiði afa hans og þar var hann kominn heim. Eftir greftrun og blessun Kristjáns Vals var gengið í votviðrinu til baka að Skálum þar sem amma hans og afi áttu heima. Kristján Valur var prestur að Skálum fyrir 50 árum en hann kom loks í grafreitinn í dag,“ skrifar Ásmudur jafnframt í færslunni um ferðalagið með jarðneskar leifar Tana í gær.
Að Skálum áttu um 130 manns heima þegar fjölmennast var og tugir skúta frá Færeyjum og Frakklandi gerðu út árabáta til veiða yfir sumarmánuðina frá Skálum. Þegar mest var voru 200 árabátar gerðir út frá Skálum sem fiskuðu upp í 800 tonn á sumri. Aflinn var saltaður um borð í skútunum í landi.
Að Skálum var reist annað frystihúsið á Íslandi eftir Íshúsinu í Vestmannaeyjum. Þeir seldu sjómönnum ís til að geyma og kæla beituna. Þar var líka lifrabræðsla og sjá má lifrapottinn og mannvirki við bryggjuna auk húsarústa íbúðarhúsa og vinnsluhúsa.
„Þetta var alveg magnaður dagur. Gangan í grafreitinn var lengri en við gerðum ráð fyrir og rigning og þoka settu dulúð á umhverfið og maður setti sig inn í bæjarbraginn í huganum á þessum útkjálka landsins fjarri öllu mannlífi í landinu. Merkilegt að þarna var fjölbreytt mannlíf, öflugt atvinnulíf sem skóp góðar tekjur fyrir land og þjóð.
Nú er Tani kominn heim og við gleðjumst með honum og þökkum fyrir gönguna saman síðasta spottann. Gangan var blaut en ánægjan að uppfylla hans hinstu ósk var okkur öllum mikilvægust í magnaðri fegurð Skála á Langanesi,“ skrifar Ásmundur að endingu.