Síðasta flug Orion kafbátarleitarflugvéla til Keflavíkur
P-3C Orion björgunar- og leitarflugvél lenti í Keflavík í síðasta skipti 7. sept. sl. en svona vélar eiga sér langa og farsæla sögu hér á landi og hafa komið að mörgum björgunar- og leitarverkefnum. Bandarísk stjórnvöld hafa síðastliðin ár verið að taka í notkun nýjar eftirlits- og leitarflugvélar fyrir kafbáta og skip. Frá sjöunda áratugnum hafa verið í notkun í Evrópu og á Íslandi P-3C Orion flugvélar og verður þeim nú skipt út fyrir nýjar P-8 Poseidon, Boeing 737 flugvélar.
Friðþór Eydal, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Varnarliðsins segir viðdvöl P-3C Orion eftirlits- og kafbátaleitarflugvélar Bandaríkjaflota á Keflavíkurflugvelli marka lok á löngum kafla í sögu kafbátaleitar úr lofti. Vel sé við hæfi að áð skuli á Keflavíkurflugvelli á heimleið eftir síðasta úthald í Evrópu en flugvöllurinn þótti löngum háborg kafbátaleitarflugs á dögum kalda stríðsins. Bandaríkjafloti hefur þegar tekið í notkun nýjar og fullkomnari flugvélar af gerðinni P-8A Poseidon en fáeinar Orion-flugvélar verða enn við störf á Kyrrahafi um nokkra hríð.
Bandaríkjafloti hóf eftirlits-og kafbátaleitarflug frá Keflavíkurflugvelli strax eftir komu varnarliðsins árið 1951. Starfsemin hlaut mjög aukið vægi á sjöunda áratugnum þegar sovéski flotinn hóf að stefna ört vaxandi kafbátaflota út á Atlantshaf. Flugvélar af gerðinni P-3 Orion voru teknar í notkun sumarið 1962 og komu fyrst til Íslands árið 1965. Árið eftir hófst þar reglubundin útgerð Orion-flugsveita sem skipt var um á hálfs árs fresti og stóð óslitið til ársins 2003. Fjölmargar aðrar þjóðir tóku Orion-flugvélar í þjónustu sína, þ.á.m. Norðmenn, og Hollendingar héldu úti slíkum flugvélum á Keflavíkurflugvelli um árabil í samstarfi við varnarliðið.
Umsvifamikill rekstur Orion-flugvélanna var snar þáttur í starfsemi varnarliðsins og voru þær algeng sjón á sveimi umhverfis Keflavíkurflugvöll og yfir hafsvæðinu umhverfis landið. Könnunarbúnaður þeirra olli byltingu í kafbátaleit úr lofti og þróaðist með miklum árangri til samræmis við framfarir í kafbátatækni, m.a. með öflugri tölvutækni við gagnaúrvinnslu. Flugreksturinn reyndist mjög farsæll eins og dæmin sanna en þrautþjálfuðum áhöfnum Orion-flugvélanna hlekktist aldrei á við störf hérlendis í hundruð þúsunda floginna klukkustunda, oft við erfiðustu aðstæður.
Til marks um fjölhæfni Orion-flugvélanna er að þær gengu í endurnýjun lífdaga í nýafstöðnum styrjöldunum í Írak og Afganistan þar sem fullkominn könnunarbúnaður þeirra, á borð við nákvæman ratsjár- og myndavélabúnað, kom að góðum notum til stuðnings landhersveita.
Síðasta Orion-flugvélin sem nú snýr aftur frá Evrópu tilheyrði 4. eftirlitsflugsveit flotans – Patrol Squadron 4. Flugsveitarforinginn, Christopher Smith skipherra, segir spennandi tíma fyrir höndum hjá liðsmönnum sínum. „Við leggjum nú Orion-flugvélunum eftir hálfrar aldar dygga þjónustu og tökum nýja og fullkomnari flugvél í notkun. Að lenda í Keflavík á heimleiðinni er mjög táknrænt eftir löng og farsæl samskipti við Íslendinga. Ég met mikils þann mikla stuðnings sem við höfum notið hjá starfsmönnum Landhelgisgæslunnar og öllum þeim sem stuðlað hafa að löngu og árangursríku samstarfi.“
Líkt og fyrirrennarinn gerði markar nýja P-8 Poseidon-flugvélin kaflaskil í könnunar- og kafbátaleitarflugi. Flugvélin er byggð á algengri og þrautreyndri gerð farþegaþotu, Boeing B-737-800, og búin helstu nýjungum í könnunarbúnaði sem völ er á. Flugvélar af þessari gerð hafa þegar tekið við keflinu í þjónustu Bandaríkjaflota í Evrópu og hafa nokkrum sinnum komið til starfa á Keflavíkurflugvelli undanfarin misseri.