Siðareglur mál málanna
Fjögurhundraðasti fundur í bæjarstjórn Reykjanesbæjar var í bíósal Duushúsa sl. þriðjudag en fyrsti fundur sameinaðs sveitarfélags Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna var haldinn vorið 1994, að loknum sveitarstjórnarkosningum.
Á 400. fundinum stóð upp úr tillaga um nýjar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa og var henni vísað til bæjarráðs. Verður tillagan til seinni afgreiðslu á næsta bæjarstjórnarfundi.
Á fundinum fjallaði Böðvar Jónsson, starfandi forseti fundarins í forföllum Gunnars Þórarinssonar, forseta bæjarstjórnar, aðeins um fundina sem báru upp á 100, 200 og 300.
Á 100. fundinum sem haldinn var í maí 1998, var t.d. lögð fram tillaga frá Steindóri Sigurðssyni, Framsóknarflokki um að setja dans og ræðumennsku í aðalnámskrá grunnskóla. Sú tillaga var samþykkt árið 2007 og því óhætt að segja að hún hafi þurft sinn tíma eða átta ár.
Á 200. fundinum 2. júlí 2002 var athyglisverðasta tillagan frá öðrum fulltrúa Framsóknar, Kjartani Má Kjartanssyni um „Taxi-bus“. Hún gekk út á að nýta leigubíla sem hluta af almenningssamgöngukerfi bæjarins. Sú tillaga fékk ekki brautargengi en var til skoðunar í nokkurn tíma.
Á 300. fundinum 6. febrúar 2007 var góðærið í algleymingi og samþykkt að vísa viljayfirlýsingu um þróunarverkefni með Geysi Green Engergy ehf. og að kaupa 2,5% hlut í fyrirtækinu til bæjarráðs.
Sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna var samþykkt með miklum meirihluta í kosningu sem fram fór 6. febrúar 1994 og þá varð í framhaldinu til sveitarfélag sem síðar fékk nafnið Reykjanesbær en nafnið „Suðurnesjabær“ var notað í bæjarstjórnarkosningunum um vorið.
Af núverandi bæjarfulltrúum hafa þeir Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson setið þrjá af þessum tímamótafundum og þau Guðný Kristjánsdóttir og Eysteinn Eyjólfsson tvo. Einn hefur hins vegar setið þá alla en það er Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari. Hann hefur setið bæjarstjórnarfundi frá 1980 eða yfir þrjátíu ár en fjögur fyrstu árin af þeim tíma var hann bæjarfulltrúi en bæjarritari eftir það.