Siðareglur fyrir Reykjanesbæ samþykktar
Tillaga að siðareglum fyrir kjörna fulltrúa í Reykjanesbæ var samþykkt á bæjarstjórnarfundi sl. þriðjudag með öllum greiddum atkvæðum.. Reglurnar ná til bæjarfulltrúa og þeirra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum. Siðareglur eiga m.a. að koma í veg fyrir hvers kyns hagsmunaárekstra fulltrúa gagnvart málefnum sem þeir koma að fyrir bæjarfélagið.
Fulltrúi Framsóknar í bæjarstjórn lagði tillögu að siðareglum fram á fundi fyrir tæpu ári síðan og var hún send til frekari vinnslu í nefnd sem einnig vann að breytingum á reglum um ungmennaráð og sagt hefur verið frá hér á vf.is. Silja Dögg Gunnarsdóttir, varabæjarfulltrúi lýsti yfir ánægju sinni með afgreiðslu málsins í bæjarstjórn. Fleiri bæjarfulltrúar gerðu það, m.a. Eysteinn Eyjólfsson, Samfylkingu sem sagði það ánægjulegt að tillagan skyldi samþykkt á 401. fundi bæjarstjórnar, fyrsta fundinum á fimmta hundraðinu. „Næsta mál er að bæjarfulltrúar geri hagsmunaskrá. Reykjanesbær yrði fyrsta bæjarfélagið til að ganga svo langt,“ sagði Eysteinn.
Siðareglurnar eru í fimmtán liðum en markmið þeirra er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir bæjarfélagið. Í reglunum er fjallað um ábyrgð, háttvísi, valdmörk misbeitingu valds, gjafir og fríðindi og hagsmunaárekstra. Þar segir m.a.: „Þegar kjörinn fulltrúi á óbeinna eða beinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem er til umfjöllunar hjá bæjarstjórn, bæjarráði, eða í öðru nefndarstarfi fyrir hönd sveitarfélagsins, skal hann gera grein fyrir þessum hagsmunum áður en umræður fara fram og atkvæði eru greidd ef vafi getur leikið á um hæfi hans.“
Einnig er í nýjum siðareglum fjallað um trúnað og stöðuveitinga. Þar segir m.a.: „Kjörnir fulltrúar skulu ekki í störfum sínum leita eftir starfslegum ávinningi í framtíðinni, meðan þeir eru við störf eða eftir að þeir hafa látið af störfum“.
------------
SIÐAREGLUR FYRIR KJÖRNA FULLTRÚA Í REYKJANESBÆ:
1. gr. Markmið.
Markmið þessara reglna er að skilgreina það hátterni sem ætlast er til að kjörnir fulltrúar sýni af sér við störf sín fyrir hönd Reykjanesbæjar og upplýsa íbúa um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Með kjörnum fulltrúum er átt við bæjarfulltrúa sem og alla aðra sem kjörnir eru til setu í nefndum og ráðum.
2. gr. Gæsla almannahagsmuna.
Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum fylgja lögum, reglum og samþykktum Reykjanesbæjar, sem og sannfæringu sinni. Þeim ber að gæta almannahagsmuna og hagsmuna sveitarfélagsins, og hafa í heiðri grundvallaratriði góðrar stjórnsýslu.
3. gr. Ábyrgð.
Kjörnum fulltrúum ber að starfa af kostgæfni, fyrir opnum tjöldum og vera reiðubúnir að rökstyðja ákvarðanir sínar og tilgreina þá þætti sem ákvarðanir þeirra eru byggðar á. Þeir skulu bera ábyrgð gagnvart bæjarbúum í heild sinni og svara fyrirspurnum almennings um framkvæmd þeirra starfa sem þeir bera ábyrgð á sem kjörnir fulltrúar.
4. gr. Háttvísi og valdmörk.
Í störfum sínum skulu kjörnir fulltrúar koma fram af háttvísi. Fulltrúum ber að virða ákvörðunarvald og réttindi annarra kjörinna fulltrúa og starfsmanna sveitarfélagsins. Þeir mega ekki hvetja eða aðstoða kjörinn fulltrúa eða starfsmann Reykjanesbæjar við að brjóta þær meginreglur sem hér eru settar fram. Kjörnir fulltrúar gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og virða verkaskiptingu í stjórnkerfi Reykjanesbæjar.
5. gr. Misbeiting valds.
Kjörnir fulltrúar mega ekki beita réttindum eða aðstöðu sem fylgja embætti þeirra í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra í því skyni að geta notið óbeinna eða beinna persónulegra hagsbóta af því. Einnig skulu þeir gæta þess að nýta sér ekki óopinberar upplýsingar til að hagnast á þeim persónulega eða að hjálpa öðrum að gera það.
6. gr. Gjafir og fríðindi.
Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptavinum eða þeim sem leita eftir þjónustu Reykjanesbæjar. Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir eða hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.
7. gr. Hagsmunaárekstrar.
Kjörnir fulltrúar skulu forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum. Þegar kjörinn fulltrúi á óbeinna eða beinna persónulegra hagsmuna að gæta í máli sem er til umfjöllunar hjá bæjarstjórn, bæjarráði, eða í öðru nefndarstarfi fyrir hönd sveitarfélagsins, skal hann gera grein fyrir þessum hagsmunum áður en umræður fara fram og atkvæði eru greidd ef vafi getur leikið á um hæfi hans. Kjörnir fulltrúar sem sitja í stjórnum í einkareknum eða opinberum félögum sem gætu átt hagsmuna að gæta vegna beinna eða óbeinna viðskipta við bæjarfélagið, skulu upplýsa um það. Um hæfi þeirra um meðferð einstakra mála fer eftir 20. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga nr.
8. gr. Ábyrgð í fjármálum.
Kjörnum fulltrúum ber að virða fjárhagsáætlun og grundvallarreglur um fjármálastjórn sem tryggja réttmæta og ábyrga meðferð á almannafé íbúa sveitarfélagsins. Við störf sín skulu kjörnir fulltrúar ekki aðhafast neitt sem felur í sér misnotkun á almannafé svo sem einkanotkun á byggingum bæjarins, bílum, tækjum og tólum nema slík notkun falli undir heimildir sem ákveðnar eru af bæjarstjórn.
9. gr. Stjórnsýslueftirlit
Kjörnir fulltrúar skulu virða stjórnsýslueftirlit hjá Reykjanesbæ og leggja sitt af mörkum til þess að markmið þess náist.
10. gr. Að virða hlutverk starfsmanna
Kjörnir fulltrúar skulu í störfum sínum virða hlutverk starfsmanna Reykjanesbæjar. Þeir mega ekki hlutast til um að starfsmenn geri neitt það sem hefur þann tilgang að verða kjörna fulltrúanum á beinan eða óbeinan hátt til hagsmunalegs ávinnings, né heldur aðila nátengdum honum eða ákveðnum hópum eða fyrirtækjum.
11. gr. Trúnaður
Kjörnir fulltrúar gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls. Trúnaðurinn helst áfram eftir að kjörnir fulltrúar láta af störfum.
12. gr. Stöðuveitingar
Kjörnum fulltrúum ber að koma í veg fyrir að einstaklingum sé veitt starf eða stöðuhækkun hjá sveitarfélaginu á öðrum forsendum en hæfni til að rækja starfið og gæta þess, þegar þeir koma sjálfir að ákvörðun um val á starfsmönnum, að hæfasti umsækjandinn hljóti starfið.
13. gr. Bann við að tryggja sér stöður.
Kjörnir fulltrúar skulu ekki í störfum sínum leita eftir starfslegum ávinningi í framtíðinni, meðan þeir eru við störf eða eftir að þeir hafa látið af störfum til dæmis í;
• opinberri stofnun eða einkafyrirtæki sem þeir hafa haft eftirlit með í störfum sínum.
• opinberri stofnun eða einkafyrirtæki sem þeir hafa stofnað til samningssambands við í störfum sínum.
• opinberri stofnun eða einkafyrirtæki sem sett var á laggirnar meðan þeir gegndu embætti og samkvæmt því ákvörðunarvaldi sem þeim var falið.
14. gr. Ráðsmennska
Kjörnir fulltrúar skulu taka fullt tillit til umbjóðenda sinna og veita þeim þá bestu þjónustu sem þeim er unnt. Þetta felur m.a. í sér að;
• leysa verkefni eftir bestu getu á sem skemmstum tíma hvort sem verkefnin eru stoðverkefni milli sviða, verkefni nefnda eða bein úrlausn fyrir bæjarbúa.
• upplýsa þá sem það á við um réttindi þeirra, skyldur og úrræði til lausnar verkefna og vandamála.
• virða og verja rétt einstaklinga til sjálfsákvörðunar eins og mögulegt er.
15. gr. Miðlun siðareglna til kjörinna fulltrúa, embættismanna og almennings
Kjörnum fulltrúum ber að tileinka sér þessar siðareglur og lýsa því yfir að þeir séu reiðubúnir til að hafa þessar siðareglur að leiðarljósi og staðfesti þann vilja með undirskrift sinni í upphafi hvers kjörtímabils. Þær skulu vera aðgengilegar starfsfólki sveitarfélagsins og fjölmiðlum til að þessir aðilar geti gert sér grein fyrir meginreglum þeirra.