Sí- og endurmenntun er tæki atvinnulífsins til þess bregðast við breyttum aðstæðum
Við áramót
Það fer ekki milli mála hver er eftirminnilegasti atburður liðins árs. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum skyggja á flest annað. Atburðurinn hefur haft víðtæk áhrif á alheimsvísu og við hér á Íslandi verðum fyrir búsifjum af hans völdum. Samdráttur er í flugi og ferðamennsku. Margir Suðurnesjamenn sækja vinnu í flugið og því eru spár um lakari afkomu fyrirtækja sem starfa í Leifsstöð og hjá Flugleiðum viðfangsefni sem bregðast þarf við með öllum ráðum.Sí- og endurmenntun er tæki atvinnulífsins til þess bregðast við breyttum aðstæðum. Þekking er undirstaða nýrra hugmynda og möguleika til að geta framkvæmt þær í nýsköpun atvinnulífs og í opinberri þjónustu ef við viljum tryggja viðunandi lífskjör til framtíðar. Við erum stödd í heimi þar sem óvæntir atburðir geta kollvarpað þeirri veröld sem við þekkjum á einum eftirmiðdegi. Atburðirnir í Bandaríkjunum minna okkur á að fjarlægir atburðir koma okkur við, að við erum hluti af hinni alþjóðlegu heild. Hið alþjóðlega samstarf fjallar þannig um framtíð okkar sjálfra þótt þær lýðræðishugmyndir sem við aðhyllumst eigi víðast langt í land að festast í sessi sem virkt samfélagsform. Það sem ógnar lýðræðinu á sér ekki rætur í pólitískri hugmyndafræði á heimsvísu. Ógnunin sækir næringu í fátækt, trúarlegar eða þjóðarlegar mótsetningar, ofstækisfulla hryðjuverkahópa, alþjóðleg glæpasamtök og í reiði fólks yfir ömurlegum lífsaðstæðum að ógleymdum skorti á lýðræðislegum hefðum og stofnunum. “Það er óþolandi að lifa í heimi þar sem yfirgnæfandi meirihluti fólks býr við stöðugt meiri fátækt” sagði Olof Palme forsætisráðherra Svía í sinni síðustu ræðu á þingi sænskra jafnaðarmanna árið 1984, skömmu áður en hann var myrtur. Hann hélt því fram að með “sæmilegri skynsemispólitík” mætti útrýma hungri í heiminum fram til ársins 2000 og takmarka fátæktina. Þetta reyndist vera of mikil bjartsýni. Alheimsfátæktin og hungrið er viðvarandi og bilið milli ríkra og fátækra þjóða eykst. Bilið milli ríkra og fátækra innan landanna eykst líka og það gildir jafnt um okkar heimshluta. Sem aldrei fyrr grípur alþjóðavæðingin inní þjóðfélagsþróun einstakra ríkja, bæði tækni- og efnahagslega, eins og glögglega hefur orðið ljóst eftir hryðjuverkin. Alþjóðleg samábyrgð sem virðist vera á undanhaldi er brýnt verkefni sem Íslendingar ættu að láta sig varða, því það skiptir okkur máli. Framtíð velferðarsamfélagsins og jafnræði þarf að verja, kynþáttamisrétti og fordóma þarf að sigrast á. Það þarf að vera unnt að horfa til framtíðar, að geta skilgreint forsendur samfélagins á rökvísan hátt, trúr þeim sönnu gildum lýðræðis og jafnræðis sem byggt er á. Forsendur lýðræðisins í heiminum þar sem “markaðslögmálin” endurheimta áður glötuð vígi á kostnað vinnunnar og lýðræðisins og leiða til misskiptingar kalla því meira en oft áður á nýja hugsun félagslegra umbóta. Ég óska Suðurnesjabúum farsældar á nýju ári.
Skúli Thoroddsen, forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.
Það fer ekki milli mála hver er eftirminnilegasti atburður liðins árs. Hryðjuverkin í Bandaríkjunum skyggja á flest annað. Atburðurinn hefur haft víðtæk áhrif á alheimsvísu og við hér á Íslandi verðum fyrir búsifjum af hans völdum. Samdráttur er í flugi og ferðamennsku. Margir Suðurnesjamenn sækja vinnu í flugið og því eru spár um lakari afkomu fyrirtækja sem starfa í Leifsstöð og hjá Flugleiðum viðfangsefni sem bregðast þarf við með öllum ráðum.Sí- og endurmenntun er tæki atvinnulífsins til þess bregðast við breyttum aðstæðum. Þekking er undirstaða nýrra hugmynda og möguleika til að geta framkvæmt þær í nýsköpun atvinnulífs og í opinberri þjónustu ef við viljum tryggja viðunandi lífskjör til framtíðar. Við erum stödd í heimi þar sem óvæntir atburðir geta kollvarpað þeirri veröld sem við þekkjum á einum eftirmiðdegi. Atburðirnir í Bandaríkjunum minna okkur á að fjarlægir atburðir koma okkur við, að við erum hluti af hinni alþjóðlegu heild. Hið alþjóðlega samstarf fjallar þannig um framtíð okkar sjálfra þótt þær lýðræðishugmyndir sem við aðhyllumst eigi víðast langt í land að festast í sessi sem virkt samfélagsform. Það sem ógnar lýðræðinu á sér ekki rætur í pólitískri hugmyndafræði á heimsvísu. Ógnunin sækir næringu í fátækt, trúarlegar eða þjóðarlegar mótsetningar, ofstækisfulla hryðjuverkahópa, alþjóðleg glæpasamtök og í reiði fólks yfir ömurlegum lífsaðstæðum að ógleymdum skorti á lýðræðislegum hefðum og stofnunum. “Það er óþolandi að lifa í heimi þar sem yfirgnæfandi meirihluti fólks býr við stöðugt meiri fátækt” sagði Olof Palme forsætisráðherra Svía í sinni síðustu ræðu á þingi sænskra jafnaðarmanna árið 1984, skömmu áður en hann var myrtur. Hann hélt því fram að með “sæmilegri skynsemispólitík” mætti útrýma hungri í heiminum fram til ársins 2000 og takmarka fátæktina. Þetta reyndist vera of mikil bjartsýni. Alheimsfátæktin og hungrið er viðvarandi og bilið milli ríkra og fátækra þjóða eykst. Bilið milli ríkra og fátækra innan landanna eykst líka og það gildir jafnt um okkar heimshluta. Sem aldrei fyrr grípur alþjóðavæðingin inní þjóðfélagsþróun einstakra ríkja, bæði tækni- og efnahagslega, eins og glögglega hefur orðið ljóst eftir hryðjuverkin. Alþjóðleg samábyrgð sem virðist vera á undanhaldi er brýnt verkefni sem Íslendingar ættu að láta sig varða, því það skiptir okkur máli. Framtíð velferðarsamfélagsins og jafnræði þarf að verja, kynþáttamisrétti og fordóma þarf að sigrast á. Það þarf að vera unnt að horfa til framtíðar, að geta skilgreint forsendur samfélagins á rökvísan hátt, trúr þeim sönnu gildum lýðræðis og jafnræðis sem byggt er á. Forsendur lýðræðisins í heiminum þar sem “markaðslögmálin” endurheimta áður glötuð vígi á kostnað vinnunnar og lýðræðisins og leiða til misskiptingar kalla því meira en oft áður á nýja hugsun félagslegra umbóta. Ég óska Suðurnesjabúum farsældar á nýju ári.
Skúli Thoroddsen, forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.