Sextán lögreglumenn fylgdu 8 vítisenglum til Óslóar
Átta norrænum félögum í vélhjólasamtökunum Hell’s Angels var synjað um leyfi til landgöngu við komu sína til Keflavíkur á föstudag. Mennirnir héldu úr landi í dag, laugardag, í fylgd 16 lögregluþjóna. Þeir fóru allir til Ósló.
Með í för var eiginkona eins mannsins. Önnur kona sem var í för með eiginmanni sínum dvelst enn hér á landi.
Mönnunum var synjað landgöngu á grundvelli c liðar 42 gr. útlendingalaga nr. 96, 2002.
Aðgerð lögregluyfirvalda vegna komu norrænna félaga í Hell’s Angels hingað til lands er ekki lokið. Fylgst verður með komuflugi til landsins um helgina sem og samkvæmi því sem vélhjólaklúbburinn Fafner-MC Iceland hafði boðað til í Reykjavík.
Embætti ríkislögreglustjóra hefur yfirstjórn aðgerðarinnar, sem er viðamikil. Framkvæmd aðgerðarinnar til þessa hefur verið í höndum lögreglunnar á Suðurnesjum auk þess sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og starfsmenn frá embætti ríkislögreglustjórans taka einnig þátt í henni.
Þetta kemur fram í frétt á vef lögreglunnar.
Mynd: Fáfnismenn bíða gesta sinna í Leifsstöð síðdegis í gær. Mynd úr vefsjónvarpi Víkurfrétta.