Sextán íbúðir í byggingu í Grindavík
Alls eru 16 íbúðir í parhúsum og raðhúsum í byggingu í Grindavík, eða framkvæmdir um það til að hefjast. Verktakarnir Grindin, HH smíði og Trésmiðja Heimis eru að byggja í Norðurhópi og Miðhópi.
Svo virðist sem ágætur markaður sé fyrir þessu húsnæði því eitthvað er búið að selja af nýsmíðinni.
Trésmiðja Heimis fékk úthlutað fjórum parhúsalóðum í Norðurhópi. Í gær var byrjað að reisa fyrsta parhúsið en íbúðirnar eru um 160 fermetrar með bílskúr. Búið er að selja eitthvað af íbúðunum.
Grindin er að byggja raðhús myndarleg raðhús með 3 íbúðum í Norðurhópi 19-23 og þegar búið að selja a.m.k. eina íbúðina.
HH smíði hefur fengið úthlutað í Miðhópi 1-9 en þar á að byggja raðhús með 5 íbúðum. Þessar íbúðir eru um 80 fermetrar og því kjörnar fyrir þá sem eru að byrja búskap.
Áhugasamir kaupendur eru hvattir til þess að setja sig í samband við verktakana.
Þá hefur verktakinn Sparri einnig verið að byggja en hefur keypt töluvert af eldra húsnæði til þess að gera upp og selja, segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar.