Sex undir læknishendur eftir bílslys
Sex voru fluttir undir læknishendur eftir að harður árekstur varð á Norðurljósavegi í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni.
Ökumaður annarrar bifreiðarinnar kvaðst hafa verið að koma úr Bláa lóninu, hefði hann ekkert borðað í langan tíma og verið lengi í lóninu. Hann hefði verið að detta úr þegar hann ók yfir á rangan vegarhelming og framan á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt.
Ökumaðurinn og farþegi sem með honum var voru fluttir á Landspítala. Í hinni bifreiðinni voru fjórir, sem allir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og tveir þeirra áfram á Landspítala. Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um meiðsl ökumanna og farþega sem allir voru erlendir ferðamenn.
Fleiri umferðaróhöpp urðu í umdæminu í vikunni, en ekki var um að ræða slys á fólki. Í einhverjum tilvika voru bifreiðirnar þó óökufærar og varð að fjarlægja þær með dráttarbifreið.