Sex þúsund búnir að skrá sig á „brautina“
Sex þúsund manns hafa skráð sig á undirskriftalista til stuðnings málefnum Reykjanesbrautarinnar og að tvöföldun brautarinnar verði flýtt. Það var klukkan 14:30 sem sexþúsundasta nafnið kom inn á undirskriftalistann en listinn fór af stað um miðja síðustu viku og hefur verið í gangi í tæpa viku. Undirbúningur fyrir borgarafund í Stapa næsta fimmtudag stendur yfir og liggur dagskrá nú fyrir. Fundarstjóri verður Sigmundur Ernir Rúnarsson, kunnur fréttahaukur á Stöð 2 en meðal þeirra sem munu tala á fundinum eru þingmenn Suðurnesjamanna, oddviti Reykjaneskjördæmis og síðast en ekki síst, Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra. Í lok fundarins verður lögð fram ályktun en auk þess verða leyfðar spurningar úr sal. Markmið fundarins er að ná fram flýtingu á framkvæmdum við tvöföldun brautarinnar.