Sex nýjar íbúðir í Víðihlíð
- uppbygging í Grindavík
Verið er að byggja sex nýjar íbúðir við Víðihlíð í Grindavík sem er dvalarheimili aldraða og byrjuðu framkvæmdir á viðbyggingunni í sumar. HH smíði sér um byggingaframkvæmdir. Stefanía S. Jónsdóttir deildarstjóri öldrunarþjónustu Miðgarðs segir að búið sé að endurnýja öll baðherbergi í öðrum íbúðum Víðihlíðar og framkvæmdir á viðbyggingunni gangi vel. Tvær íbúðir verða stórar og tvær aðeins minni, einnig verður ein íbúð sérstaklega hönnuð fyrir einstaklinga í hjólastól og stefnt er að því að íbúðirnar verði fullkláraðar í mars.
Ákvörðun um viðbygginguna var tekin þegar það var kominn þrýstingur fyrir síðustu bæjarstjórna kosningar um að það vantaði fleiri íbúðir og var viðbyggingin hluti af kosningaloforði Sjálfstæðisflokksins. Nefnd var sett í málið og hún skipulagði bygginguna. „Þessar íbúðir anna ekki allri eftirspurninni en eru svo sannarlega mikil búbót. Þetta verður mjög flott þegar þær verða komnar til viðbótar við hinar íbúðirnar sem eru nú þegar til staðar“ segir Stefanía.
Stefanía sér um tómstundarstarf eldri borgara í Grindavík sem fer fram í Miðgarði. Miðgarður er staðsettur í Víðihlíð og hefur verið starfræktur frá því í september 2011 en þar fer félagsstarf eldri borgara fram og er alltaf nóg um að vera. „Við erum með línudans, jóga, postulínskennslu, keramik, kortagerð, vatnsleikfimi svo eitthvað sé nefnt og svo má ekki gleyma morgungöngunum í Hópinu, þær göngur eru vel sóttar. Bingóið er alltaf vinsælt hjá okkur og allt að 50 manns mæta og vinningarnir eru alltaf veglegir.“
Eldri borgarar eru duglegir að sækja þá viðburði sem eru í boði en þeir greiða ekkert fyrir það sem er í boði. „Það er frábært að geta boðið upp á þessa viðburði þeim að kostnaðarlausu. Hér er líka lestur tvisvar sinnum í viku þar sem lesnar eru skemmtilegar sögur eða bækur eða jafnvel eitthvað sem rifjar upp æskuárin, þau skemmta sér alltaf vel yfir því sem verið er að lesa og hláturinn heyrist oft út á gang.“
Í fyrra fór tilraunaverkefni af stað í Víðihlíð að bjóða upp á mat í hádeginu. Þessi þjónusta fór vel af stað og var góð mæting. Boðið verður upp á heitan mat í hádeginu aftur í vetur sem á eflaust eftir að vekja mikla lukku.
„Við viljum að fólkinu líði vel og hafi eitthvað fyrir stafni, við erum líka með góða heimaþjónustu hér í Grindavík sem kemur reglulega heim til fólks og aðstoðar það við ýmsa hluti eins og húsverk og spjallar líka við það.“