Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sex ára Keilir veitir um 200 manns vinnu
Miðvikudagur 8. maí 2013 kl. 10:35

Sex ára Keilir veitir um 200 manns vinnu

Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, varð 6 ára í gær. Af því tilefni var starfsfólki skólans boðið upp á myndarlega afmælistertu í tilefni dagsins. Það kom í hlut Árna Sigfússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ og stjórnarformanns Keilis að skera fyrstu sneiðina.

Keilir hefur vaxið hratt á þessum árum og í dag koma 200 manns með mismiklum hætti að störfum Keilis. Þá veltir fyrirtækið 650 milljónum króna á ári og frá stofnun hafa 1400 manns útskrifast frá skólanum

Keilir var stofnaður vorið 2007. Skólinn hefur aðsetur á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins í Reykjanesbæ – sem nú kallast Ásbrú – og starfar sem stendur í fjórum skólum. Hver þeirra hefur sínar áherslur í samræmi við markmið Keilis að byggja á mikilvægi alþjóðaflugvallar og umhverfisvænum auðlindum en jafnframt að nýta þá þekkingu sem er til staðar í nærumhverfinu.

Keilir er hlutafélag. Meðal eigenda eru Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, rannsóknarstofnanir, orku- og fjármálafyrirtæki, sveitarfélög, almenningssamtök, flugfélag og verkalýðsfélög.
 
Framkvæmdastjóri Keilis er Hjálmar Árnason
 
Markmið Keilis eru:

Að styrkja menntun á Suðurnesjum og skapa eldri nemendum tækifæri til háskólanáms með stofnum frumgreinadeildar

Að byggja upp skóla og menntasamfélag á Keflavíkurflugvelli

Að efla íslenskt atvinnulíf með stofnun fagskóla

Að byggja upp alþjóðlegt háskólanám í samstarfi við innlenda og erlenda háskóla

Að byggja upp alþjóðlegar rannsóknir og nýsköpunarstarf í samstafi innlendra og erlendra rannsóknarstofnana, háskóla og fyrirtækja


Keilir starfrækir bæði námsbrautir á háskólastigi og framhaldsskólastigi. Skólanum er ætlað að fylla í eyður í skólakerfinu og vera í nánum tengslum við atvinnulífið – ekki síst þau fyrirtæki sem hasla sér völl á Ásbrú. Allt nám Keilis á háskólastigi skal vottað af Háskóla Íslands, stærsta hluthafanum í Keili. Keilir byggist sem stendur upp á fjórum mismunandi skólum.
 
Háskólabrú
Á Háskólabrú fer fram undirbúningsnám fyrir háskólanám. Nemendur skulu hafa lokið um 70 einingum í framhaldsskóla en ljúka að ári liðnu námi á Háskólabrú sem veitir inngöngu í háskóla. Námsskrá Háskólabrúar hefur verið sniðin að óskum deilda Háskóla Íslands. Nám á Háskólabrú er bæði hægt að taka í fjarnámi er hefst í janúar ár hvert og staðnám er hefst í ágúst ár hvert. Útskrifaðir nemendur af Háskólabrú stunda nú nám í háskólum hérlendis og erlendis.
 
Forstöðukona Háskólabrúar er Soffía Waag Árnadóttir
 
Íþróttaakademía
Íþróttaakademía Keilis leggur áherslu á að þróa og bjóða uppá nám á sviði heilsu- heilbrigðis- og íþróttafræða. Nú þegar er kennd við skólann ÍAK einkaþjálfun sem hefur vakið verðskuldaða athygli og nýtur mikilla vinsælda.  Haustið 2013 hefst í fyrsta sinn ný námsbraut í styrktarþjálfun sem kennd verður með sama sniði og ÍAK einkaþjálfarinn.  Ásamt okkar frábæru kennurum, koma nokkrir nýir kennarar að styrktarþjálfaranáminu, þar á meðal erlendir sérfræðingar, hver á sínu sviði. Aðstaða nemenda til náms og þjálfunar er einstaklega góð í stóru fjölnota íþróttahúsi á Ásbrú. Innan heilsuskólans er m.a. unnið að nýjum námsbrautum, s.s. ævintýraferðaþjónustu, sjúkranudd og fíkniráðgjöf og forvarnir.
 
Forstöðumaður Heilsuskóla er Arnar Hafsteinsson
 
Tæknifræði
Keilir býður upp á fjölfaglegt og hagnýtt tæknifræðinám á háskólastigi í samstarfi við Háskóla Íslands. Námið er þriggja ára fullgillt 214 ECTS eininga starfsréttindanám sem veitir rétt til að sækja um starfsheiti tæknifræðings. Nemendur geta valið um mekatróník hátæknifræði eða orku- og umhverfistæknifræði. Námið hentar vel þeim sem hafa verkvit og áhuga á tæknilegum lausnum og nýsköpun.
 
Forstöðumaður tæknifræðináms Keilis er Sverrir Guðmundsson
 
Flugakademían
Flugakademía Keilis stefnir að því að hafa allt flugtengt nám undir einum hatti og skipa því verðugan sess í skólakerfinu. Þegar erum við með í gangi einka- og atvinnuflugnám, flugrekstrarnám, flugþjónustunám og nám í flugumferðarstjórn. Í bígerð er nám í flugvirkjun. Lögð er áhersla á nútímalega kennsluhætti og kennsluumhverfi en staðsetning skólans felur í sér einstakt tækifæri til þess að skapa frábæra aðstöðu til kennslu flugtengdra greina. Þegar á Keilir fimm glænýjar og fullkomnar kennsluflugvélar af gerðinni Diamond.
 
Forstöðumaður Flugakademíunnar er Rúnar Árnason
Skólastjóri Flugakademíunnar er Tómas Beck
 
Fjarnám Keilis

Keilir hefur lagt þunga áherslu á að tileinka sér nýjustu og bestu tækni í fjarnámi. Margar af námsbrautum okkar má stunda í fjarnámi. Í megindráttum er það byggt upp á því að kennarar setja kynningar sínar og glærur á netið, tala skýringar sínar með, jafnvel bæta inn teikningum og skýringarmyndum eftir þörfum, slóðir að lifandi myndum o.s.frv. Nemendur geta borið fram spurningar sem kennari svarar reglulega. Þá geta nemendur spjallað saman um efnið á netinu. Aðgang að þessum þáttum hefur nemandinn hvenær sem honum hentar og jafn oft og hinum sýnist. Þannig má segja að með fullkominni tækni standi Keilir að mjög einstaklingsmiðuðu námi sem auðveldar mörgum að stunda nám.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024