Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sex ára hringdi á Neyðarlínuna ofan úr háu tré - myndir
Þriðjudagur 20. júlí 2010 kl. 21:07

Sex ára hringdi á Neyðarlínuna ofan úr háu tré - myndir

Sex ára gömul stúlka brá á það ráð að hringja á Neyðarlínuna, 112, þegar hún og tíu ára gömul vinkona hennar komust ekki niður úr háu tré í garði í Keflavík í kvöld. Björgunarlið frá Lögreglunni á Suðurnesjum og Brunavörnum Suðurnesja fór þegar á staðinn og bjargaði stúlkunum úr trénu, sem er 12 til 15 metra hátt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það var kl. 19:15 í kvöld sem Neyðarlínunni barst hjálparbeiðni ofan úr trénu. Þangað voru stúlkurnar tvær komnar í viðleitni sinni að huga að hreiðri í trénu. Þegar þær voru komnar mjög ofarlega í tréð áttuðu þær sig á því að þær kæmust ekki niður aftur. Nú voru góð ráð dýr. Yngri stúlkan, sú sex ára, var hins vegar með síma í bandi um hálsinn og það fyrsta sem henni datt í hug var að hringja í 112 og biðja um hjálp.

Slökkviliðsmenn og lögregla komu þegar á staðinn bæði með stiga og körfubíl. Hins vegar var ekki hægt að koma körfunni að trénu og fóru því björgunarmenn upp í tréð með stiga og náðu þannig að koma stúlkunum niður.

Tréð stendur þétt upp að bílskúr og er talið að stúlkurnar hafi farið upp í tréð ofan af skúrnum. Þær voru nokkuð kokhraustar í fyrstu en fljótlega eftir að þær komu niður úr trénu áttuðu þær sig á hættunni og tárin brutust fram. Þær láta það örugglega eiga sig að klifra upp í svona há tré á næstunni. Ekki fer sögum af því hvort þær hafi komið fugli til bjargar í trénu.

Ljósmyndari Víkurfrétta, Hilmar Bragi, myndaði björgunaraðgerðir nú í kvöld. Af tillitsemi við stúlkurnar gerðum við andlit þeirra ógreinileg á meðfylgjandi myndum.