Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sex aðilar á Suðurnesju fengu umhverfisstyrki Fríhafnarinnar
Forráðamenn þeirra aðila sem fengu styrkina með Ástu Dís Óladóttur og Þórólfi Árnasyni. VF-mynd/pket.
Þriðjudagur 30. apríl 2013 kl. 20:38

Sex aðilar á Suðurnesju fengu umhverfisstyrki Fríhafnarinnar

Fjölbreytt uppbyggingar- og hreinsunar verkefni á mismunandi sviðum fengu styrki.

Sex styrkir voru veittir úr nýjum umhverfissjóði Fríhafnarinnar við hátíðlega athöfn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar síðdegis í dag.

Umhverfissjóður Fríhafnarinnar var stofnaður í maí árið 2012 með það að markmiði að styrkja verkefni á sviði umhverfisverndar, með áherslu á nærsvæði starfsstöðva Fríhafnarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samþykkt var að 5 krónur af hverjum seldum plastpoka skyldu renna í sjóðinn. Alls nema þeir styrkir sem veittir voru í dag rétt rúmri einni og hálfri milljón króna. Fjölmargir sóttu um í sjóðinn, en ákveðið var að veita sex aðilum styrk í fjölbreytt uppbyggingar- og hreinsunar verkefni á mismunandi sviðum.

Áhugahópurinn Heiðafélagið hlaut styrk til gróðursetningar á um 1000 furum í mólendi á Miðnesheiðinni í nágrenni flugstöðvarinnar. Heiðafélagið leggur til mótframlag sem felst í gróðursetningu á trjánum.

Ungmennafélag Njarðvíkur (UMFN) fékk styrk til gróðursetningu trjáa við keppnis- og æfingasvæði deildarinnar í Njarðvík. Það getur orðið ansi vindasamt á svæðinu og því er hugmyndin að mynda skjól fyrir keppnisvelli svo börn og unglingar eigi auðveldara með æfingaiðkun, sem og að bæta og fegra aðstöðuna alla. UMFN leggur til mótframlag sem fellst í vinnu við gróðursetningu, sem og að útvega það sem til þarf til verksins.

Golfklúbbur Suðurnesja mun vinna að uppgræðslu á svæðum í kringum Hólmsvöll í Leiru og hlaut til þess styrk. Markmið golfklúbbsins er að hreinsa strandlengjuna meðfram golfvellinum í Leirunni, skipta um jarðveg og gróðursetja tré vestan megin við golfvöllin. Framlag golfklúbbsins er sjálfboðavinna við uppgræðsluna.

Fyrir rúmum 20 árum gróðursetti Lionsklúbbur Njarðvíkur plöntur í svokallaða Paradís í Ytri Njarðvík. 2012 fékk Lionsklúbburinn þennan reit til umsjónar með það að markmiði að byggja svæðið enn frekar upp, til almenningsnota og yndisauka. Lionsklúbburinn fær styrk til þess að fjölga plöntum á svæðinu, sem og að koma upp bekkjum og borðum svo nýting svæðisins geti orðið betri og fjölbreyttari. Lionsklúbburinn mun vinna að þessu verki í sjálfboðavinnu, auk þess mun garðyrkjustjóri Reykjanesbæjar og Skógræktarfélag Suðurnesja koma að verkefninu með ráðgjöf. Þá stendur til að nemendur í Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri muni koma að verkinu í gegnum lokaverkefni við umhverfisskipulag, skógfræði og landgræðslu. Sannkölluð paradís fyrir háskólanemendur.

Skógræktar- og landgræðslufélagið Skógfell hyggst koma upp aðstöðu til þess að taka á móti leik- og grunnskólabörnum úr Vogum sem koma til gróðursetningar á svæði Háabjalla og hlaut styrk til verkefnisins.

Bjallinn er misgengi sem er austast af fimm misgengjum sem ganga út úr Vogastapa til suðvesturs. Skógrækt hófst við Háabjalla árið 1949 og er þar nú gróðursæll skógarreitur.

Blái herinn eru félagasamtök sem stofnuð voru árið 1998. Meðlimir bláa hersins vinna að ýmsum samfélagsverkefnum, s.s. hreinsunarverkefnum í náttúrunni, umhverfisfræðslu í leikskólum og svo mætti lengi telja. Frá upphafi hefur Blái herinn unnið hátt í 50.000 klukkustundir í sjálfboðavinnu í yfir 100 verkefnum á landsvísu.

Forráðamenn þessara aðila tóku á móti styrkjunum í flugstöðinni en Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri og Þórólfur Árnason, stjórnarformaður Isavia afhentu þá.