Settir verði upp gámar á fjölförnum stöðum þegar sorphirða fer úr skorðum
Starfsfólk í Kölku sem sinnir símsvörun er að bugast undan dónaskap og djöflagangi.
Veikindi meðal sorphirðumanna og erfiðar vetraraðstæður helstu ástæður tafa á sorphirðu.
„Starfsfólk í Kölku sem sinnir símsvörun er að bugast undan dónaskap og djöflagangi vegna þessa ástands. Það er þó líka heilmikið um jákvæð samskipti, t.d. við íbúa sem koma með yfirfallið sitt í Helguvík eða á móttökustöðvar í Grindavík og Vogum. Stór hluti íbúanna á svæðinu sér ekkert athugavert við að sorphirða gangi úr skorðum við aðstæður eins og nú eru. Við sem sinnum samskipunum við verktakann getum ekki séð hvað við hefðum getað gengið lengra í því að þrýsta á um úrbætur,“ segir Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri Kölku í svari til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ. Á fundi þeirra 17. janúar lögðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram spurningar um verklag við sorphirðu en hún hefur farið úr skorðum í óveðri sem hefur geysað reglulega síðustu vikurnar.
„Þetta ástand er á landinu öllu og enginn sorphirðuaðili hefur verið með umframgetu í sínu kerfi til þess að koma og hjálpa okkur. Fjallað hefur verið um þetta í stjórn Kölku og vafalaust verður það gert aftur á næsta fundi. Ef stjórnin telur að annað starfsfólk hefði komist lengra með að knýja fram meiri afköst í losun þá gerir hún væntanlega ráðstafanir í samræmi við það. Það hefur valdið mér miklum heilabrotum að heyra starfsfólk segja að það hafi verið á ferðinni í sínum frítíma að taka myndir af aðstæðum „til þess að geta varið sig“ fyrir árásum íbúa. Þegar ástandið er orðið svona og Virkur í athugasemdum orðinn ofvirkur á samfélagsmiðlum þá þarf sannleikurinn oft að víkja fyrir „betri sögu“.
Þannig höfum við sent fólk út að skipta um tunnur sem átti að vera auðvelt að ganga að en svo komið í ljós að þær voru undir snjóskafli. Á fundum mínum með bæði stjórn og verktakanum hef ég verið að viðra hugmyndir um hvernig hægt sé að takast á við svona ástand. Ein hugmynd er t.d. að velja nokkra fjölfarna staði í bæjunum og koma þangað gámum og auglýsa þá. Þannig gæti fólk komið þeim úrgangi sem það er í vandræðum með án þess að þurfa að keyra alla leið í Kölku. Það koma aftur jól, ófærð og flensur. Þeir sem þurfa að takast á við það munu ekki verða með nein úrræði. Það stefnir ekki í offramboð á sorphirðubílum og starfsfólki til að manna þá. Íbúar á svæðinu munu aldrei kjósa þá leið að borga fyrir þjónustuna það verð sem myndi kosta að hafa innviði og mönnun miðaða við verstu aðstæður sem upp hafa komið í áratugi. Í mínum huga er því ekki annað í boði en að huga að mildandi aðgerðum fyrir íbúa, eins og að færa gáma undir yfirfallið nær þeim þegar svona aðstæður koma upp,“ segir Steinþór ennfremur í svari sínu.
Þar kemur einnig fram að tafir hafi mest verið komnar í tvær vikur og þá gæti verið mánuður frá síðustu losun. Hann bendir á að auk óveðurs séu fleiri ástæður fyrir lakari sorphirðu, bilanir í bíl verktaka og þá hafi langdregnar flensur haft áhrif á mönnun hjá verktaka. Komið hafi upp dæmi þar sem aðeins einn losunarbíll hafi verið í gangi en iðulega séu þeir tveir eða þrír. „Á móti má þá spyrja hvort það séu ekki eðlilegar væntingar til verktakans að hann bæti í losun, lengi losunardagana, vinni um helgar og jafnvel bæti við bílum og teymum,“ segir í svari hans en þar er einnig bent á að hluti skýringanna sé að sorphirðumenn hafi ekki alltaf komist að tunnunum vegna snjós og klaka.