Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sett verði hámark á fjölda flóttafólks sem Reykjanesbær þjónustar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 17. mars 2022 kl. 12:02

Sett verði hámark á fjölda flóttafólks sem Reykjanesbær þjónustar

– ekki verði reynt um of á innviði samfélagsins

Ásta Kristín Guðmundsdóttir, teymisstjóri alþjóðlegrar verndar, og Hilma H. Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála, mættu á fund velferðarráðs Reykjanesbæjar í síðustu viku og fóru yfir stöðu mála varðandi samræmda móttöku flóttafólks en í undirbúningi er endurskoðun þjónustusamnings Reykjanesbæjar og fleiri sveitarfélaga við félagsmálaráðuneytið um móttöku, aðstoð og þjónustu við flóttafólk.

Einnig lá fyrir fundinum erindi frá sviðsstjórum fræðslu- og velferðarmála Akureyrarbæjar, Hafnarfjarðar, Reykjavíkurborgar, Reykjanesbæjar og sveitarfélagsins Árborgar þar sem óskað er eftir að við gerð nýs samnings um samræmda móttöku flóttafólks verði samið um sérstakar greiðslur vegna skólaþjónustu, frístunda-, félags- og tómstundaþátttöku barna með flóttabakgrunn svo að sveitarfélögunum verði gert kleift að stuðla að farsælli aðlögun og inngildingu barna að íslensku menntakerfi og samfélagi. Á fundi sínum þann 17. febrúar síðastliðinn tók bæjarráð Reykjanesbæjar heilshugar undir erindi bréfsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Töluverð aukning á fjölda flóttafólks í þjónustu Reykjanesbæja

Töluverð aukning hefur orðið á fjölda flóttafólks í þjónustu hjá Reykjanesbæ umfram forsendur þjónustusamningsins við félagsmálaráðuneytið auk þess sem fyrirsjáanlegt er að töluverður fjöldi flóttafólks komi frá Úkraínu á næstunni en samkvæmt reiknireglu samningsins greiðir ríkið fyrir þjónustu miðað við fjölda flóttafólks í þjónustu. Gert var ráð fyrir tveimur stöðugildum hjá Reykjanesbæ til að þjónusta þennan hóp en ljóst er að það dugir ekki til. Því er óskað eftir heimild til að ráða tímabundið í stöðugildi til að sinna þjónustunni í samræmi við reiknireglu samningsins.

Velferðarráð telur mikilvægt að við endurskoðun þjónustusamnings við félagsmálaráðuneytið um móttöku, aðstoð og þjónustu við flóttafólk verði sett hámark á fjölda flóttafólks sem Reykjanesbær þjónustar samkvæmt samningnum þannig að ekki verði reynt um of á innviði samfélagsins. Einnig tekur ráðið undir erindi frá sviðsstjórum fræðslu- og velferðarmála þeirra sveitarfélaga sem eru aðilar að samningnum um að samið verði um sérstakar greiðslur vegna skólaþjónustu, frístunda-, félags- og tómstundaþátttöku barna með flóttabakgrunn.