Sestur í helgan stein eftir 61 ár á vinnumarkaði
Sigurður Ingvarsson rafverktaki er sestur í helgan stein eftir 61 ár á vinnumarkaði. Sigurður er rétt liðlega áttræður og notaði daginn í dag, lokadaginn 11. maí, sem var stór dagur í vertíðarplássum við sjávarsíðuna, til að láta staðar numið á vinnumarkaði.
Ásmundur Friðriksson alþingismaður vakti athygli á þessum tímamótum Sigurðar í morgun með færslu á fésbókinni þar sem sagði m.a.:
„Sigurður Ingvarsson sem hóf rafvirkjanám 19 ára gamall lætur staðar numið eftir 61 ár á vinnumarkaði. Af virðingu við föður sinn og sjómenn lætur Sigurður staðar numið í dag og leggur fyrirtækið og störfin í hendur dætra sinna og tengdasona. Farsæll ferill frá því að hann hóf nám í rafvirkjun hjá Sigurði í Ljósboganum í Keflavík. Sigurður stofnaði til eigin rekstrar árið 1968 og hefur reksturinn verið farsæll og traustur. Hann byggir á góðu starfsfólki sem fylgt hefur honum á leiðinni eins og traustir viðskiptavinir sem eru fjölmargir stórir og sterkir aðilar.
Sigurður var sveitarstjórnarmaður í Garðinum og lék og þjálfaði unga og reynda knattspyrnumenn hjá Víði í Garði árum saman. Hann og fjölskylda hans hafa stutt starfsemi knattspyrnunnar í Garði á margvíslegan hátt í áratugi.
Það er eftirtektarvert fyrir mig sem kynntist Sigurði þegar ég varð bæjarstjóri í Garðinum hvað hann og fjölskylda hans eru traust og gott Garðfólk sem ann sveitarfélaginu sínu og æskuslóðunum af heilum hug og opnu hjarta,“ skrifar þingmaðurinn.
Víkurfréttir áttu viðtal við Sigurð í nóvember 2019 í þáttunum Suður með sjó, þar sem rætt var við guðföður fótboltans í Garði, rafverktakann og hreppsnefndarmanninn. Viðtalið má lesa hér og horfa á í spilaranum hér að neðan.