Sérstakir tónleikar í salnum Kópavogi
Slagverks- ,dans- og sönghópurinn Tanhatu Marimba sem sló rækilega í gegn á Íslandi í fyrra er staddur á Húsavík um þessar mundir við kennslustörf. Stúlkurnar í hópnum koma frá Fredrikstad og er ein af stúlkunum íslensk, Jóhanna Ósk Herjólfsdóttir. Húsavíkurbær og Hafralækjaskóli hafa fest kaup á nokkrum Marimbum og eru tónlistaskólarnir fyrir norðan að hefja kennslu á þessi skemmtilegu hljóðfæri. Það sem gerir kennsluna sérstaka er að tónlistarnámið byggist á hlustun og athygli, engar nótur eru notaðar, þannig að tónlistin berst frá manni til manns. Söngur, dans, klapp og trommuspil er allt jafn nauðsynlegt í tónlistarfluningnum og skapar eina heild. Þetta er í annað sinn sem hópurinn heimsækir Ísland, en hann hélt fjölda tónleika í grunnskólum landsins í febrúar í fyrra. Hópurinn heldur tvenna tónleika í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, fimmtudaginn 20. febrúar og föstudaginn 21. febrúar og hefjast tónleikarnir bæði kvöldin kl. 20. Miðaverð er kr. 1.500 fyrir fullorðna og kr. 1.000 fyrir börn.