Sérfræðistofnanir og eftirlitsaðilar fari yfir tæknileg atriði
Orkustofnun hefur óskað eftir umsögn Grindavíkurbæjar við umsóknar HS Orku um nýtingarleyfi á jarðhita á Reykjanesi. Í svörum skipulagsnefndar Grindavíkur segir að Grindavíkurbær gerir ráð fyrir því að sérfræðistofnanir og eftirlitsaðilar fari yfir tæknileg atriði og áhrif á nýtingu jarðhitageymisins í sínum umsögnum.
Umsókn um uppfært nýtingarleyfi Reykjanesvirkjunar er innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í skipulagi sveitarfélagsins og því gerir Grindavíkurbær engar athugasemdir við umsóknina.
Í umsókninni eru engar upplýsingar um mögulegar framkvæmdir eða breytingar sem kunna að fylgja í kjölfarið og vekur Grindavíkurbær athygli á að allar breytingar og nýframkvæmdir þurfa að vera í samræmi við greinargerð og uppdrætti aðal- og deiliskipulags. Sveitarfélagið veitir jafnframt framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum og byggingarleyfi fyrir breytingum og byggingu nýrra mannvirkja. Erindinu er vísað til fullnaðarafgreiðslu bæjarstjórnar.