Séra Sigfús sækir um í Tjarnaprestakalli – einnig séra Carlos A. Ferrer
Níu umsækjendur eru um embætti sóknarprests í Tjarnaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi sem auglýst var laust til umsóknar nýlega. Kálfatjarnarsókn er önnur þeirra sókna sem heyra undir Tjarnaprestakall, en hin er Ástjarnarsókn í Hafnarfirði. Meðal umsækjena eru séra Sigfús Baldvin Ingvason prestur við Keflavíkurkirkju og séra Carlos A. Ferrer, núverandi sóknarprestur í Kálfatjarnarsókn, en meirihluti sóknarbarna á almennum safnaðarfundi vildu auglýsa starf hans laust til umsóknar, þegar fimm ára ráðningartíma lýkur.
Á almennum safnaðarfundi í Kálfatjarnarsókn í Tjarnaprestakalli í Vogum í nóvember á sl. ári var ákveðið að auglýsa embætti sóknarprests laust til umsóknar. Skipunarrtíma núverandi sóknarprests, Carlosar Ferrer, lýkur í september á þessu ári, en skv. lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar verður ákvörðun um að auglýsa embættið að liggja fyrir a.m.k. átta mánuðum fyrir lok skipunartímans.
Umsækjendur um embætti sóknarprests eru:
Cand. theol. Aðalsteinn Þorvaldsson
Séra Bára Friðriksdóttir
Cand. theol. Brynja Vigdís Þorsteinsdóttir
Séra Carlos A. Ferrer
Séra Elínborg Gísladóttir
Séra Hans Markús Hafsteinsson
Séra Sigfús Baldvin Ingvason
Séra Skírnir Garðarsson
Séra Þórhildur Ólafs
Embættið veitist frá 1. september 2007. Dóms - og kirkjumálaráðherra skipar í embættið til fimm ára að fenginni niðurstöðu valnefndar. Valnefnd skipa níu fulltrúar úr prestakallinu, auk prófasts Kjalarnesprófastsdæmis og vígslubiskups Skálholtsbiskupsdæmis.
Mynd: Séra Sigfús Baldvin sækir um stöðu sóknarprests í Tjarnaprestakalli. Hann sótti um stöðu sóknarprests í Keflavíkurkirkju á síðasta ári, en fékk ekki. Miklar deilur blossuðu upp í sókninni af þeim sökum. VF-mynd: Ellert Grétarsson