Senda sex fulltrúa á vinabæjarmót
- Áætlað að ferðin kosti eina milljón
Sex fulltrúar frá Reykjanesbæ taka þátt í vinabæjarmóti í Trollhättan í Svíþjóð. Mótið hefst í dag fimmtudag og stendur fram á laugardag. Borgin fagnar á sama tíma aldarafmæli sínu. Á mótinu verður nýtt vinabæjarsamkomulag undirritað en í því verður kveðið á um næstu sameiginlegu verkefni vinabæjanna sem standa munu yfir í tvö ár.
Áætlað er að kostnaður Reykjanesbæjar við ferð fulltrúanna sex verði um ein milljón króna. Þar af fer um hálf milljón í flugfargjöld. Ekki er flogið beint til Trollhättan og er gert ráð fyrir að lestarferðir og leigubílaferðir til og frá lendingarstöðum og Trollhattan kosti um 100 þúsund. Hótelkostnaður er greiddur af gestgjöfum. Engir dagpeningar verða greiddir en útlagður kostnaður endurgreiddur samkvæmt reikningi.
Fulltrúar Reykjanesbæjar á vinabæjarmótinu verða þau Ásbjörn Jónsson, sviðsstjóri Stjórnsýslusviðs, Helgi Arnarson, sviðsstjóri Fræðslusviðs, Hera Ósk Einarsdóttir, sviðsstjóri Velferðarsviðs, Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, Árni Sigfússon, bæjarfulltrúi minnihluta og Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi meirihluta. Ekki eru allir á eitt sáttir um þessa ráðstöfun á fjármunum bæjarins sem glímir við töluverðar skuldir og sköpuðust líflegar umræður um málið á Facebook í hópnum Reykjanesbær - Gerum góðan bæ betri.
Að sögn Guðbrands Einarssonar, forseta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, má vissulega hafa á því skoðun hvort ferðin kosti mikið eða lítið. „Ég vil í því samhengi benda á að ferðalög með flugi milli landshluta innanlands kosta ekkert minna en þetta. Það eru til dæmis haldnir sameiginlegir fundir sveitarfélaga á Akureyri sem geta kostað talsvert og það fettir enginn fingur út í það. Við komumst ekkert hjá samskiptum við aðra og ég veit ekki hvort að þeir fulltrúar sem eru að fara séu eitthvað öfundsverðir af því að eyða frítíma sínum í svona ferð. Fyrst og síðast er verið að horfa til þess hvort þetta gagnist sveitarfélaginu sem ég er handviss um að það gerir,“ segir hann.
Aðspurður um helsta ávinninginn af slíku vinabæjarsamstarfi segir Guðbrandur hann vera af samskiptum yfirleitt þannig að fólk læri hvert af öðru. „Við höfum í áratugi verið í vinabæjarsamskiptum við nokkur sveitarfélög á Norðurlöndum og þessi samskipti hafa nýst okkur vel á margan hátt. Þessi samskipti hafa einnig verið nýtt til þess að unglingar í okkar sveitarfélagi hafa fengið að kynnast jafnöldrum sínum í vinabæjarsveitarfélögunum, meðal annars með þátttöku í íþróttamótum sem sveitarfélögin hafa staðið fyrir. Í þessu tilfelli er um að ræða að eitt þessara sveitarfélaga fagnar 100 ára afmæli og býður hinum sveitarfélögunum til sín af því tilefni. Það er ekki síður mikilvægt að á þessum fundi er verið að fjalla um þrjú efnisatriði sem skipta okkur hér í Reykjanesbæ miklu máli, það er rafræna stjórnsýslu, brottfall úr skóla og móttaka erlendra íbúa. Þess vegna fara sviðstjórarnir sem þessi málaflokkar falla undir á þennan fund (velferðarsvið, fræðslusvið og stjórnsýslusvið). Til viðbótar fara þrír kjörnir fulltrúar. Það þótti eðlilegt að það færi fulltrúi frá meirihluta, ásamt fulltrúum þeirra stjórnmálaafla sem sitja í minnihluta.“ Guðbrandur segir ferðina eins ódýra og hægt er. Ekki séu greiddir dagpeningar og að makar fari ekki með sé nýmæli.