Selkópur kominn upp í miðja íbúðabyggð í Höfnum
Selkópur gerðist djarfur daginn fyrir Þorláksmessu og var kominn upp í miðja íbúðabyggð í Höfnum í Reykjanesbæ þegar lögreglan og íbúar ákváðu að stöðva för dýrsins og koma því aftur til sjávar.
Selkópurinn var kominn að fyrsta húsinu við Djúpavog í Höfnum sem er um hálfan kílómetra frá sjónum. Þar flatmagaði hann í innkeyrslunni og forvitnir bæjarbúar fylgdust með aðförum þeirra sem reyndu að koma dýrinu aftur til sjávar.
Selkópurinn var lítið fyrir að láta atast í sér og varðist af hörku. Það tókst þó að koma honum inn í litla sendibifreið og var selnum ekið niður að höfn. Þar var honum komið í sjóinn en tókst þó að bíta í buxnaskálm áður en ævintýrinu lauk.
Meðfylgjandi myndir tók Hilmar Bragi við þetta tækifæri.