Selja fatnað fyrir mat
Verkefni Fjölskylduhjálpar Íslands á Suðurnesjum hafa aukist mikið á undanförnum mánuðum. Í dag eru skjólstæðingar samtakanna um 350 talsins á Suðurnesjum og hefur þessi hópur tvöfaldast frá því starfsemin hófst á Suðurnesjum.
Að sögn Önnu Jónsdóttur, verkefnastjóra á Suðurnesjum, er fjölgunin mest í hópi eldri borgara en einnig hjá ungum fjölskyldum sem eru að byrja búskap.
Til að afla fjár fyrir matarúthlutanir eru Fjölskylduhjálpin með fatamarkað alla fimmtudaga í húsnæði sínu í Grófinni. Þá eru matarúthlutanir tvisvar í mánuði, annan og síðasta fimmtudag í mánuði.
Á fatamarkaðnum er bæði nýr og notaður fatnaður. Notaði fatnaðurinn er mjög vel með farinn en markaðurinn er hugsaður fyrir alla Suðurnesjamenn og er til fjáröflunar. Þar má m.a. fá fermingarjakkaföt á drengi á 2000 kr. Fatnaðurinn á markaðnum er almennt seldur á 200-3000 krónur. Þá eru til sölu nýir gallar frá 66°N fyrir börn á 5000 krónur og úlpur á 3000 kr. Einnig er til mikið af samkvæmis- og sparikjólum sem skjólstæðingar Fjölskylduhjálpar geta fengið lánaða fyrir fermingarveislur en allir skjólstæðingar geta einnig fengið frían fatnað á markaðnum á fimmtudögum.
Vegna fjárskorts var ekki mögulegt að vera með úthlutun nú í vikunni fyrir páska en mjög hefur gengið á sjóði Fjölskylduhjálpar Íslands þar sem hver úthlutun kostar miklar fjárhæðir. Þannig kostar bara mjólkurúthlutun 280.000 kr. í hvert skipti og jólaúthlutunin kostaði 13 milljónir króna.
Það kom fram í spjalli blaðamanns við Önnu Jónsdóttur, verkefnastjóra fjölskylduhjálpar, að börn á Suðurnesjum eiga góða stuðningsmenn á höfuðborgarsvæðinu. Kona úr Reykjavík styður þannig þrjú börn á Suðurnesjum sem eru að fermast í ár og borgar fyrir þau fermingarveislu og fermingarfatnað. Þá barst nýlega góður stuðningur frá tveimur öðrum konum á höfuðborgarsvæðinu sem verður nýttur sem stuðningur við fjölskyldur sem eru að ferma börn. Anna vildi koma á framfæri þökkum til allra þeirra fyrirtækja, félaga og einstaklinga sem hafa verið að leggja Fjölskylduhjálpinni lið. Þannig hafa fiskverkendur í Grindavík gefið mikið af fiski, Sigurjónsbakarí hefur gefið brauð, Nettó gefið gjafakort og nýlega barst mikið af páskaeggjum bæði frá fyrirtækjum og einstaklingum.
Þá afhenti Omnis nýlega tölvu og skjá frá HP til Fjölskylduhjálparinnar í Reykjanesbæ, en tölvubúnaði hafði verið stolið í innbroti um jólin. Þá mættu tveir ungir herramenn, Sigurjón og Daníel, í vikunni og gáfu stórt páskaegg sem mun fara á góðan stað.