Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Seldu 24 íbúðir á sýningarhelginni
Sparra íbúðirnar flugu út á sýningarhelginni. VF-mynd/hilmar.
Föstudagur 8. mars 2019 kl. 06:00

Seldu 24 íbúðir á sýningarhelginni

Sparri ehf. bauð vandaðar íbúðir á hagstæðu verði í Innri-Njarðvík og eru að fara að byggja minni íbúðir

„Við áttum alls ekki von á þessu en þetta var auðvitað ánægjulegt, “ segir Guðborg Eyjólfsdóttir hjá verktakafyrirtækinu Sparra á Suðurnesjum en nýlega auglýsti fyrirtækið 24 íbúðir við Trönudal í Innri-Njarðvík og seldust þær allar helgina sem þær voru sýndar.

Um er að ræða 3ja og 4ra herbergja íbúðir í fjórum sexbýlishúsum, frá 76 fermetrum upp í 93 fermetra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Minnstu íbúðirnar voru á 29,5 milljónir kr. en þær stærstu á um 34,5 millj. kr.  

Guðborg segir að næsta verkefni hjá Sparra verði minni íbúðir við Tjarnarbakka í Innri-Njarðvík. Þar verði stílað meira inn á unga fólkið sem sé að fjárfesta í fyrstu kaupum. Íbúðirnar verða í kringum 70 fermetrar að flatarmáli. Sparri er rumlega tuttugu ára gamalt verktakafyrirtæki í eigum bræðranna Arnars Jónssonar og Halldórs Jónssonar en nærri 30 manns vinna hjá þeim við smíðarnar. Þá eru um tuttugu starfsmenn í rafvirkjun og tveir í pípulögnum. Sparri rekur einnig járnsmiðju Steingrímsen í Keflavík.

Arnar sagði í stuttu spjalli við Víkurfréttir að fyrirtækið hafi lagt áherslu á að hafa verðið hagstætt án þess að það kæmi niður á gæðunum. Íbúðirnar eru afhentar fullfrágengnar með vönduðum innréttingum, tækjum og gólfefni.

 

Sparri hefur verið afkastamikill byggingaverktaki á undanförnum tveimur áratugum, m.a. í þessu mest vaxandi hverfi Reykjanesbæjar, Innri-Njarðvík en einnig nýverið byggt raðhús fyrir Þroskahjálp í Sandgerði, áhaldahús í Vogum og sýningarhús fyrir Bl bílaumboð í Reykjavík.