Sektaðir um 534.082 krónur fyrir verkfallsbrot
Útgerð mb. Sigurfara GK hefur verið sektuð um rúma hálfa milljón króna fyrir verkfallsbrot en skipið fór á sjó í dag frá Sandgerði.
Þegar Sigurfari GK kom til lands undir kvöld beið Magnús S. Magnússon, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis, á bryggjunni með kröfu til útgerðarinnar vegna verkfallsbrotsins.
Með því að Sigurfari GK fór á sjó í dag var verið að brjóta tvær greinar, 1.20 um matsveina og 1.40 um verkfall hjá félagi innan ASÍ í kjarasamningi um borð í mb. Sigurfara GK.
„Þar sem félagsmenn Verkalýðs- og sjómannafélags Sandgerðis eru í verkfalli og ekki er virtur þeirra réttur með því að mb. Sigurfari GK er sendur á sjó og aðrir gengi í þeirra störf hefur félagið ákveðið að beita grein 1.43 Brot á samningum í kjarasamningi. Uppreiknuð sektarupphæð samkvæmt kaupgjaldskrá þessarar greinar er kr: 534.082,- ,“ segir í bréfi sem Magnús afhenti skipstjóra Sigurfara GK þegar hann kom í land.
Annað skip sömu útgerðar, Siggi Bjarna GK, fór einnig á sjó í dag og þar segir Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis að einnig hafi verið framið verkfallsbrot. Þar var beitt sama sektarákvæði og á Sigurfara GK.
Myndirnar voru teknar þegar Sigurfari GK kom til Sandgerðis undir kvöld. VF-myndir: Hilmar Bragi
Bergur Þór Eggertsson aðstoðarframkvæmdastjóri Nesfisks, útgerðar Sigurfara GK, og Magnús S Magnússon formaður VSFS. Bergur með Sjómannaalmanakið en Manús með sekt upp á rúma hálfa milljón. VF-myndir: Hilmar Bragi