Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Segjast sjá fyrir endann á björgun Guðrúnar KE-15
Miðvikudagur 22. október 2003 kl. 11:52

Segjast sjá fyrir endann á björgun Guðrúnar KE-15

„Það er ekki nema um vika frá því við hófum aðgerðir við skipið og veðrið hefur verið okkur hliðhollt. Tæpast verður þó hafist handa um að lyfta því fyrr en eftir um tvær vikur eða svo," segir Hans Mastermo hjá Seløy Undervannsservice sem norska strandgæslan fól á dögunum að bjarga fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur KE-15 en það sökk við Lófót í Norður-Noregi í fyrrasumar, að því er fram kemur í frétt mbl.is.

„Við tókum þráðinn upp að nýju í síðustu viku við að undirbúa að lyfta skipinu upp á yfirborðið. Það er góður skriður á verkinu og samkvæmt verkáætlun verður skipinu ekki lyft fyrr en eftir minnst viku," sagði Mastermo við Fréttavef Morgunblaðsins, en hann er framkvæmdastjóri Seløy.

„Við erum að vinna verkið fyrir norsku strandgæsluna og sinnum því einir og án samstarfs við nokkra aðila," sagði Mastermo er hann var spurður að því hvort fyrrum björgunaraðilar Guðrúnar á Íslandi ættu einhverja aðild að björguninni.

Henry Bertheussen hjá norsku strandgæslunni sagði að skrifað hefði verið undir samning við Seløy um björgun Guðrúnar 2. október sl. og sér vitanlega hefðu aðgerðir á vettvangi hafist um það bil viku seinna. Hafi þær gengið einstaklega vel vegna hagstæðs veðurs.

„Samkvæmt áætlunum er ætlunin að reyna að lyfta skipinu af hafsbotni í viku 44 eða 45 eða á næstu tveimur vikum. Mér skilst að ekkert komið upp að undanförnu sem breytt gæti því," sagði Bertheussen og sagðist sjá fyrir endann á björgun Guðrúnar.

Aðspurður hvort íslenskir aðilar sem nýverið hættu tilraunum til að ná skipinu upp af hafsbotni væru út úr myndinni svaraði Bertheussen: „Við höfum ekki heyrt neitt lengi til eða frá Íshúsi Njarðvíkur eða GGKE15-hópnum. Við erum hins vegar í sambandi við eigendur skipsins, útgerðarfélagið Festi, um hvað við tekur þegar skipinu hefur verið náð upp. Á þá fellur kostnaður af björguninni."

 

Fleiri fréttir af mbl.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024