Segja verulegar líkur á eldgosi
Land hefur risið í Svartsengi um 40 sentimetra síðan kvikugangurinn myndaðist í hamförum þann 10. nóvember sl. Hraði á landrisi Svartsengi hefur aukist á ný en í síðustu viku hægði á því. RÚV hefur eftir sérfræðingi á Veðurstofu Íslands að kvikusöfnunin sé orðin um þrír fjórðu af því sem leiddi til eldgoss 18. desember í fyrra.
Þrjár vikur eru í dag frá því eldgosið hófst. Það var kl. 22:17 mánudagskvöldið 18. desember. Gosið hófst með aðeins um 90 mínútna fyrirvara við Sundhnúkagígaröðina. Þegar mest var gaus á um 3.800 metra langri sprungu.
Benedikt Ófeigsson, fagstjóri hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við RÚV í dag að hraðinn á landrisinu við Svartsengi sé svipaður og hann var fyrir gosið. Benedikt segir að allt bendi til þess að atburðarásin endi með gosi og það verði líklegast í Sundhnúkagígaröðinni, milli Hagafells og Stóra-Skógfells.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is í dag að líkur á eldgosi við Sundhnúkagígaröðina séu verulegar.
„Landrisið heldur áfram við Svartsengi og stöðin þar er komin í sömu hæð og áður, og er jafnvel hærri. En aðrar stöðvar þarna í kring eins og Eldvörpin eru ekki komin í sömu stöðu og fyrir síðasta gos. Þróunin er sú sama og verið hefur,“ segir Magnús Tumi við mbl.is.
Þá er haft eftir Þorvaldi Þórðarsyni, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu í dag að kvikugeymslan sé að fyllast og að hún sé komin að þolmörkum.
Þróuninni síðustu daga svipi til atburðarásarinnar fyrir eldgosið 18. desember að mati Þorvaldar. Landrisið í Svartsengi sé orðið meira en þá og landrisið við Eldvörpin að nálgast sömu hæð og síðast.