Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Segja ráðherra ráðast á bæjarfélagið
Fimmtudagur 10. september 2009 kl. 08:25

Segja ráðherra ráðast á bæjarfélagið


Engin rök eru fyrir yfirlýsingum iðnaðaráðherra og ríkisstjórnin er sammála um að ráðast á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ, segja Árni Sigfússon, bæjarstjóri og Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs í svarbréfi til Katríar Júlíusdóttur, iðnaðarráðherra, vegna bréfs sem hún sendi bæjaryfirvöldum fyrir helgi vegna viðskipta HS Orku og Reykjanesbæjar, sem mikið hefur verið fjallað um.

Samningur HS Orku og Reykjanesbæjar um nýtingu á orkuauðlindum í eigu bæjarins er til 65 ára með ákvæði um að hægt sé að taka hann upp þegar samningstíminn er hálfnaður. Þá geti samningaðilar metið forsendur fyrir annað hvort framhald eða uppsögn samningsins.

Katrín var í viðtali í Kastljósþætti á mánudaginn þar sem hún lýsti þeirri skoðun sinni að samningur HS Orku og Reykjanesbæjar gegni gegn anda orkulaga.
Í honum væri kveðið á um á hvaða forsendum viðræður skuli fara fram að liðnum 32 árum, þ.e. einungis sé talað um framlengingu. Því sé búið sé að ákveða út á hvað viðræðunar skuli ganga að þessum tíma liðnum. Þannig sé verið að binda hendur þeirra sem þá munu fjalla um samninginn fyrir hönd bæjarins eða eigenda orkuauðlindanna.

Í viðtalinu bendir  Katrín á að nefnd á vegum ríkisins vinni nú að mótun stefnu hvernig orkuauðlindum ríkisins verði ráðstafað til framtíðar. Hún telur rétt að samningur HS Orku og Reykjanesbæjar verði endurskoðaður með hliðsjón af þeirri stefnu en í henni verði  fjallað bæði um auðlindagjald og leigutíma á orkuauðlindum.

Árni Sigfússon og Böðvar Jónsson hafa sem fyrr segir svarað með bréfi þar sem  þeir tala m.a. um árásir í bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þeir vísa því á bug að samningurinn sé ekki í anda laganna enda hafi lögmenn staðfest það.

Svarbréf Árna og Böðvars er birt í heild sinni hér að neðan:


Virðulegi iðnaðarráðherra

Með sjónvarpsviðtali í Kastljósi s.l. mánudag og með blaðaviðtölum bæði við þig og aðra ráðherra í ríkisstjórn Íslands, þar sem ráðherrar hafa lagt sig fram um að gagnrýna bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ, er sleginn nýr tónn í samskiptum ríkisvaldsins og sveitarfélags á Íslandi. Því miður sjáum við okkur ekki annað fært en að svara þeim fáheyrðu yfirlýsingum sem þar hafa komið fram á opinberum vettvangi. 
Af viðræðum okkar við þingmenn sem stóðu að meirihluta iðnaðarnefndar þegar lög nr. 58/2008 voru samþykkt er ljóst að þau eru alls ekki sammála túlkun þinni á því að samningur Reykjanesbæjar við HS Orku sé ekki í „anda laganna“ eins og þú hefur haldið fram. Þvert á móti telja þau að samningurinn sé algerlega samkvæmt lögum og í anda þeirra eins og komið hefur fram í blaðagreinum, m.a. í Morgunblaðinu 8.sept. s.l. Lögmenn hafa jafnframt staðfest hið sama.


Reykjanesbær beið eftir lagasetningu alþingis

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ítrekað skal að Reykjanesbær seldi ekki hlut sinn í Hitaveitu Suðurnesja þegar önnur sveitarfélög gerðu það 2007, heldur var ákveðið að bíða eftir að lagasetning alþingis um breytingar á sviði orkulaga lægju fyrir.  Þegar lögin höfðu verið samþykkt var hafinn undirbúningur að því að skipta fyrirtækinu upp í sérleyfisfyrirtæki og samkeppnisfyrirtæki í anda hinna nýju laga.  HS orka var eigandi lands og auðlinda og engin lög kröfðu HS orku um að afsala sér þessum auðlindum. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ höfðu hins vegar lýst yfir áhuga á að kaupa land og auðlindir HS orku, svo tryggja mætti að þær kæmust í opinbera eigu.  Okkur bar þó engin skylda til þess.  Ef Reykjanesbær hefði ekki gengið fram fyrir skjöldu og keypt landið, hefði land og auðlind verið áfram í höndum HS orku og líklega verið svo um ókomna tíð. Þá hefði enginn verið að ræða um samning til 65 ára samkvæmt lögum, því ekki hefði verið um neinn samning að ræða. Ef HS Orka yrði síðan í meirihlutaeigu útlendinga, væru eignir hennar, þ.á.m. land og jarðauðlindir einnig í eigu sömu aðila. En svo varð ekki! Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ sáu til þess.


Milljarður lagður í að eignast auðlindina


Í Kastljósþætti s.l. mánudag gafstu í skyn að þú vildir ekki standa frammi fyrir kjósendum þínum með slíkan samning til 65 ára eins og Reykjanesbær hefði gert - eftir að hafa sjálf staðið í forsvari lagasetningar nákvæmlega um það sama. Þetta er augljóslega flokkspólitísk árás sem við bjuggumst ekki við að kæmi frá iðnaðarráðherra sem hefur unnið með bæjaryfirvöldum að góðum verkum eins og álveri í Helguvík. Þú telur hins vegar ástæðu til þess að ráðast á fulltrúa sveitarfélags sem lagt hefur rúman einn milljarð króna í að kaupa auðlind og land sem áður var í eigu einkafyrirtækis. Þú ræðst á þann sem kom henni þar með í opinbera eigu, og gerði um hana nýtingarsamning við seljandann, til áframhaldandi notkunar í 65 ár, með framlengingarmöguleikum sem er nákvæmlega samkvæmt laganna hljóðan.
Í sama kastljósþætti varðir þú hins vegar sölu Samfylkingarinnar í Hafnarfirði á hlut sínum í HS Orku til erlends fyrirtækis. Ef Reykjanesbær hefði ekki verið búinn að kaupa land og auðlind af HS Orku, hefði Samfylkingin í Hafnarfirði verið að selja útlendingum (Magma) auðlindir Íslands.  það er fyrir tilstilli meirihluta sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ að  svo varð ekki.


Engin rök fyrir yfirlýsingum ráðherra


Ráðherra til upplýsinga er rétt að benda á að afskriftatími virkjana Landsvirkjunar er 60 ár. Þetta kemur skýrt fram í ársreikningum Landsvirkjunar;  60 ár. Það er ógerningur að sjá hvernig land undir virkjanir á að hafa styttri leigutíma en afskriftatími virkjunarinnar sjálfrar er.  Myndi einhver byggja sér heimili ef hann hefði ekki leigu- eða eignarsamning um lóðina sem byggt er á nema til skamms tíma ? Myndi einhver byggja virkjun fyrir tugi milljarða ef hann hefði ekki leigusamning um landið undir henni ? Eru einhver rök fyrir yfirlýsingu um „að leigutími eigi að vera styttri en 65 ár“..... þótt í lögunum segi 65 ár ? Til hvers var verið að setja 65 ára reglu í lögin? Skyldu einhverjir ráðgjafar hafa bent á að það væri í samræmi við gildandi afskriftatíma allra virkjana ríkisins? Ef einhver meining er í þessu hjá ráðherra hlýtur hún að krefjast þess að afskriftatíma í bókum Landsvirkjunar verði breytt, svo hún þurfi ekki að standa frammi fyrir kjósendum sínum með svo langan afskriftatíma!!  Um leið þarf líklega að breyta forsendum lánasamninga hjá Landsvirkjun.


Ríkisstjórnin ræðst á Reykjanesbæ


Því miður staðfestir þessi umræða aðeins að ríkisstjórnin hefur aðeins getað komið sér saman um eitt atriði varðandi sölu Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í HS Orku. Þau gátu verið sammála um að ráðast á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ sem er stærsta vígi meirihluta sjálfstæðismanna á landinu. Það er dapurt að verða vitni að því að ráðherra iðnaðarmála, sem jafnan hefur fengið hrós fyrir verk sín hjá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ, taki slíkt hlutverk að sér.
Nú sem fyrr er það ekki vilji okkar að standa í illdeildum. Ef það er vilji ráðherra að einhverjir þættir í frjálsum og löglegum samningum milli Reykjanesbæjar og HS orku hf. verði endurskoðaðir, er sjálfsagt að verða við því, svo lengi sem slík endurskoðun leiðir ekki til verri stöðu eða verri samninga fyrir Reykjanesbæ. Slík álytkun hefur þegar verið samþykkt í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.
Ráðherra hefði getað farið vinsamlegri leið til að koma þessum áhyggjum sínum á framfæri. Heimsókn og kaffisopi á Ljósanótt hefði getað leyst málið í vinsemd.

Reykjanesbæ 9.september 2009
Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar

----

Ljósmynd: Oddgeir Karlsson.