Segja meirihlutann fallinn - með fjóra komma níu
Á meðan Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar tala um að bæjarfélagið standi sterkum fótum, með 7,7 milljarða hagnað og geti tekið á sig umtalsverð áföll í efnahagsþrenginum, talar A-listinn um að meirihlutinn sé „fallinn með fjóra komma níu, eitt skelfilega skiptið enn,“ eins og segir í gömlum dægurlagatexta. Tekist var á um ársreikning Reykjanesbæjar 2009 þegar hann kom til síðari umræðu á þriðjudaginn.
A-listinn segir 7,7 milljarða króna hagnað til komin vegna sölu á hlut bæjarins í HS Orku á síðasta ári. Söluhagnaðurinn sé nýttur til að búa til fallegar fyrirsagnir í fjölmiðlum en fjármunirnir sem fengust við söluna séu langt í frá til ráðstöfunar fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Í bókun meirihlutans er talað um að 7,7 milljarða hagnaður og sterk eiginfjárstaða bæjarsjóðs sýni að bæjarfélagið standi sterkum fótum og geti þolað umtalsverð áföll í efnahagsþrengingum.
Hagnaður, sterk eiginfjárstaða og öflug atvinnuppbygging, segir meirihlutinn
„7,7 milljarða hagnaður og sterk eiginfjárstaða bæjarsjóðs Retkjanesbæjar sýnir að bæjarfélagið stendur sterkum fótum og getur þolað umtalsverð áföll í efnahagsþrengingum. Bæjarfélagið hefur tekið á sig aukinn kostnað á undanförnum mánuðuðum m.a. vegna aukinnar fjárhagsaðstoðar við íbúa í neyð, vegna barnaverndar og kostnaður af þjónustu leikskóla,“ segir í bókun meirihlutans sem lögð var fram á fundinum. Þar segir ennfremur:
„Öflug atvinnuuppbygging sem D-listi sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hefur barist fyrir, oftast í miklum mótbyr stjórnvalda, er nú brátt að skila sér í hærra launuðum störfum íbúa og þar með auknum rekstrartekjum Reykjanesbæjar.
Áhersla á ný, fjölbreytt og stór atvinnutækifæri og sú öfluga nýsköpun sem á sér stað í atarfandi fyrirtækjum í bænum, stórum sem smáum, er sterkasti grunnurinn fyrir tekjumyndun og áframhaldandi uppbyggingu á sviði fjölskyldumála, menntunar og umhverfismála. Við munum því halda ótrauð áfram við að gera Reykjanesbæ enn betri að búa í,“ segir í bókun meirihlutans.
Fallinn með fjóra komma níu, segir minnihlutinn
„Með ársreikningi Reykjanesbæjar fyrir árið 2009 er það staðfest að sjálfstæðismönnum er það ómögulegt að að reka bæjarsjóð og undirstofnanir hans með hagnaði. Þrátt fyrir skæðadrífu fréttatilkynninga um meintan hagnað Reykjanesbæjar er niðurstaðan sú að milljarða tap er á bæjarsjóði,“ segir í bókun A-listans um ársreikninginn.
Þar segir ennfremur:
„Það sem gerir sjálfstæðismönnum kleift að leggja fram ársreikning sem sýnir hagnað upp á 7,7 milljarða er að hlutur Reykjanesbæjar í HS Orku var seldur einkaaðilum á síðasta ári í andstöðu við meirihluta bæjarbúa. Söluvirði þess hlutar var rúmir 13 milljarðar og bókhaldslegur söluhagnaður rúmir 11 milljarðar sem síðan er nýttur til að búa til fallegar fyrirsagnir í fjölmiðlum. Þeir fjármunir sem fengust við söluna í HS Orku eru langt í frá til ráðstöfunar fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Söluandvirðið var greitt með hlutabréfum í HS veitum fyrir rúma 4.3 milljarða (nafnverð 427 milljónir) og með skuldabréfi (kúluláni) að upphæð kr. 6.3 milljarðar sem greiðist ekki fyrr en 2016. Það reiðufé sem fengist hefur greitt vegna þessarar sölu eru 1.875 milljónir sem greiddar voru á árinu 2009 og 625 milljónir sem greiddar verða á árinu 2010.
Gjöld bæjarsjóðs 1.189 milljónum umfram tekjur
Gjöld bæjarsjóðs Reykjanesbæjar voru 8.138 milljónir á síðasta ári en tekjur aðeins 6.949 milljónir. Niðurstaða fyrir fjármagnsliði er halli uppá 1.189 milljónir sem er 17% af tekjum. Þessi niðurstaða er ekkert einsdæmi í sögu Reykjanesbæjar því að allt þetta kjörtímabil hefur niðurstaðan verið með sambærilegum hætti. Árið 2006 var hallinn 322 milljónir, 2007 268 milljónir, 2008 1.195 milljónir og nú 1.189 milljónir. Niðurstaða sjálfstæðismanna af rekstri bæjarsjóðs Reykjanesbæjar á þessu kjörtímabili er þvi sú að eytt hefur verið 3.000 milljónum króna umfram tekjur. Þetta er sá hallarekstur sem Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur nú gert athugasemdir við. Það eru því fleiri en bæjarfulltrúar A listans sem sjá eitthvað athugavert við slíka stjórnurnarhætti.
Þegar salan á Hitaveitunni er undanskilin og rekstur bæjarsjóðs Reykjanesbæjar er skoðaður að teknu tilliti til fjármgnsliða kemur í ljós að niðurstaða af rekstri er eftirfarandi:
Það er því ljóst að verulegur halli er af reglubundinni starfsemi Reykjanesbæjar eða rúmlega 1, 7 milljarður af bæjarsjóði og rúmir 2,3 milljarðar af samstæðu. Halli er af rekstri Reykjaneshafnar upp á 504 milljónir króna og Fasteignir Reykjanesbæjar sem heldur utan um félagslega hluta húsnæðiskerfis Reykjanesbæjar er rekið með 151 milljóna halla. Það vekur auðvitað athygli að heildarútgjöld vegna húsaleigu námu á síðasta ári rúmum 1,3 milljarði og nema nú tæpum 32% af útsvarstekjum sem voru rúmir 4 milljarðar.
Bókhaldsskráning vegna HS stækkar efnahagsreikning
Efnahagsreikningur Reykjanesbæjar tekur verulegum breytingum á milli ára og er skýringar nánast eingöngu að leita í sölu RnB í HS Orku og kaupa RnB á hlut í HS Veitum eins og endurskoðendur sveitarfélagsins benda á. Skuldabréfið sem Geysir Green gaf út við vegna kaupanna að upphæð tæpir 6,3 milljarðar er nú skráð í bækur ásamt viðbótareign okkar í HS veitum fyrir 4,2 milljarða. Þetta breytir að sjálfsögðu ekki virði eigna okkar þótt breyting hafi orðið á bókhaldslegri skráningu þeirra.
Endurskoðendur sveitarfélagsins benda á að veð sem Reykjanesbær hafði í hlutabréfum HS Orku vegna áðurnefnds skuldabréfs hafi með hlutfjáraukningu þess fyrirtækis rýrnað verulega. Undirliggjandi veð í skuldabréfinu á Geysi Green Energy ehf. hafi verið miðað við gengið 5,73 í bókum Reykjanesbæjar en öll hlutafjáraukningin sem keypt var upp af GEE og Magma fór fram á genginu 3. Bæjarfulltrúar A listans vöruðu við ótryggu veði í bókun þann 14. júlí 2009 sem ekki var tekið tillit til.
Rétt er að minnast á boðaðar breytingar samgönguráðherra á meðferð leigusamninga í bókhaldi sveitarfélaga. Þar verða húsaleiguskuldbindingar færðar í efnahagsreikning sem skuldir og leigðar fasteignir sem eignir eins og bæjarfulltrúar A listans hafa alla tíð kallað eftir. Ljóst þykir að virði fasteigna er talsvert lægra en núvirt húsaleiguskuldbinding og mun þetta veikja eiginfjárstöðu Reykjanesbæjar en sýna betur raunverulega stöðu sveitarfélagsins.
Ráðast verður í lántöku til þess að standa undir rekstri
Næsta ár er í raun háð mikilli óvissu. Fjárhagsætlun ársins 2010 er byggð á hundruðum milljóna tekjuauka vegna stórframkvæmda sem ekki eru í augsýn ásamt stórfelldum niðurskurði sem ekki hefur verið beitt áður í sveitarfélaginu.
Þá duga veltufjármunir ekki til að standa undir greiðslu skammtímaskulda og því mun þurfa að grípa til lántöku til þess að halda rekstri sveitarfélagsins og dótturfélaga gangandi.
Það má í raun segja um sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Reykjanesbæjar að þeir sé fallnir með 4,9 eins og segir í þekktum dægurlagatexta og því miður í eitt skelfilega skiptið enn,“ segir í bókun A-listans.