Segja HSS hafa starfað í eitruðu umhverfi ómálefnalegrar umræðu í áratugi
Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna þess sem hún segir ómálefnalega umfjöllun. Í yfirlýsingunni segir m.a.: „Stofnunin hefur um áratugi starfað í eitruðu umhverfi ómálefnalegrar umræðu sem er ein orsök helsta vandans sem við glímum við, mönnunarvandans. Linni þessum árásum ekki verður vandinn sem við reynum samhent að leysa einfaldlega enn verri.“
Hér er yfirlýsingin í heild sinni:
Frá því að núverandi framkvæmdastjórn tók til starfa hefur verið unnið með starfsfólki að breytingum. Árið 2020 markaði starfsfólk HSS stefnu til næstu ára sem kynnt var opinberlega. Síðan þá hefur verið unnið markvisst eftir henni og nú þegar er sú vinna farin að skila árangri.
Breytingarnar miða allar að því að bæta getu stofnunarinnar til að veita þjónustu í þágu samfélagsins. Tekist hefur að byggja upp samheldið teymi fagfólks og stjórnenda við erfiðar aðstæður svo sem undirmönnun og aðstöðuleysi. Starfsfólk HSS tekst á við þessi verkefni vitandi að stofnunin hefur um áratugi starfað í eitruðu umhverfi ómálefnalegrar umræðu sem er ein orsök helsta vandans sem við glímum við, mönnunarvandans. Linni þessum árásum ekki verður vandinn sem við reynum samhent að leysa einfaldlega enn verri.
Gagnrýni á þjónustu opinberra stofnana er þeim öllum nauðsynleg. Við, eins og aðrir víkjum okkur ekki undan henni. Hún verður hinsvegar að vera málefnaleg og fara í réttan farveg.
Mönnunarvandi er vel þekktur í heilbrigðiskerfinu, ekki síst á landsbyggðinni. Ofan á hann bætist ómálefnaleg gagnrýni á opinberum vettvangi sem fær starfsfólk til að hugleiða þakklátari störf. Þetta leiðir til þess að erfiðlega gengur að manna stöður í framlínu sem veldur því að ekki er hægt að veita eins mikla þjónustu og við gætum ef við værum fullmönnuð.
Segja má að við séum föst í vítahring neikvæðrar umræðu sem ekki hefur tekist að rjúfa í áratugi. Í stað þess að vinna með stofnuninni hafa sumir valið að fara þá leið að gagnrýna starfsfólk hennar ómálefnalega og vinna þannig gagngert gegn uppbyggingu. Sú orðræða er starfsfólki afar erfið og hefur bein áhrif á það hversu aðlaðandi HSS er sem vinnustaður, bæði fyrir núverandi og framtíðar starfsfólk. Afleiðingarnar hafa verið þær að við getum ekki veitt eins mikla þjónustu og samfélagið þarf.
Tvær leiðir eru færar fyrir samfélagið á Suðurnesjum. Sú fyrri er sú sem haldið hefur verið á lofti í áratugi, leið ómálefnalegrar gagnrýni. Slíkt niðurrif getur aðeins spillt fyrir því að okkur sé kleift að rækja hlutverk okkar eins vel og hægt er. Seinni leiðin er að fara að fordæmi starfsfólks, sem í dag vinnur samhent að því að byggja upp heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.
Við getum öll verið sammála um að góð heilbrigðisþjónusta er undirstaða hvers samfélags. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra að taka þátt í að hlúa að henni. Við hvetjum alla til þess að leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á okkar starfsfólki og hjálpa okkur þannig að efla heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
Framkvæmdastjórn HSS