Segir styttast í opnun Bláfjalla
Grétar Þórisson, forstöðumaður skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, bindur miklar vonir um að hægt verða að opna skíðasvæðið í Bláfjöllum síðar í vikunni. Þetta segir hann í samtali við www.mbl.is
„Það er farið að snjóa aðeins og spáir áframhaldandi snjókomu. Við þurfum ekki mikinn snjó til viðbótar til þess að hægt sé að opna fyrir almenning,“ sagði Grétar.
Fram hefur komið í fréttum að snjórinn, sem kyngt hefur niður suðvestanlands, hafi reynst afar léttur í sér og því auðveldlega fokið til. Að sögn Grétars hefur frostið að undanförnu hjálpað til við að þétta snjóinn auk þess sem starfsmenn hafi verið úti að troða á Bláfjallasvæðinu. „Þannig að þetta horfir allt til betri vegar,“ segir Grétar en Bláfjöll hafa það sem af er vetri aðeins verið opin almenningi í einn dag.