Segir samskiptin í Vogum komin í ruslflokk
Fyrrverandi formaður Ungmennafélagsins Þróttar gagnrýnir sinnaskipti sveitarfélagsins
Gunnar Júlíus Helgason, fyrrverandi formaður Ungmennafélagsins Þróttar og knattspyrnudeildar félagsins, er ómyrkur í máli í aðsendri grein í Víkurfréttum vikunnar þar sem hann gagnrýnir Sveitarfélagið Voga og sinnaskipti þess í garð ungmennafélagsins. Hann hefur áhyggjur af því stóra verkefni sem Ungmennafélaginu Þrótti hefur verið treyst fyrir næsta sumar en í júní stendur til að halda Landsmót ungmennafélaga 50+ í Vogum.
Sveitarfélagið Vogar hefur verið fremst í flokki bakhjarla Þróttar síðustu ár og bendir Gunnar á að sveitarfélagið hafi notið góðs af því samstarfi; „... allir muna átakið sem Þróttur ýtti úr vör síðastliðið haust þar sem hvatt var til barneigna í Vogunum. Fékk það skemmtilega framtak gríðarlega athygli og voru fjölmiðlar duglegir að dreifa boðskapnum. Einnig hefur sveitarfélagið veitt UMFÞ margar viðurkenningar og hvatt félagið til dáða sem er gott dæmi um frábært viðhorf sveitarfélags til íþróttafélagsins í bænum.“
Eitthvað virðast samskiptin hafa stirðnað á milli Ungmennafélagsins Þróttar og Sveitarfélagsins Voga eftir síðustu bæjarstjórnarkosningar og bæjarstjóraskipti og segir Gunnar þau nú vera komin í ruslflokk.
„Hitt er verra og alvarlegra að sveitarfélagið hefur ekki treyst sér til þess að standa við gerða samninga og neitað að greiða reikninga á móti vinnuframlagi. Sveitarfélagið hefur neitað að virða stjórnskipun félagsins og neitað að eiga í samskiptum við formann félagsins og formenn deilda – sem auðvitað er forkastanlegt,“ segir Gunnar m.a. en grein hans má lesa í heild sinni með því að smella hér.
Fleira virðist taka undir mál og skoðun Gunnars en Gísli Sigurðarson sagði af sér formennsku í knattspyrnudeild Þróttar nú í haust og segir ástæðuna vera hversu hratt samskipti við bæjaryfirvöld hafi versnað.
„Ég hef alltaf átt gott með að vinna með öðrum en þetta var eitthvað allt annað. Ég ákvað að láta þetta gott heita þegar mér var neitað skyndilega um fund hjá bænum í sumar til að klára vallarmálið og bæjarstjórinn fór að stjórna félaginu með allt annarri nálgun en gengur og gerist og velja sér fundarmenn frá félaginu óháð því hver gerir hvað hjá Þrótti. Svona framkomu sætti ég mig ekki við og ég læt ekki koma svona fram við mig. Af þeim sökum ákvað ég að stíga til hliðar og eyða tíma í eitthvað annað,“ sagði Gísli í færslu á Facebook-síðu sinni þann 30. september síðastliðinn, degi eftir að hann hætti sem formaður deildarinnar.
Þetta er hið mesta leiðindamál og það virðist erfitt að manna stjórn deildarinnar en knattspyrnudeild Þróttar hélt aukaaðalfund þann 29. ágúst síðastliðinn. Þeim fundi var frestað um mánuð, til 29. september, þar sem Gísli Sigurðarson lét af embætti. Arftaki hans er ekki enn fundinn og ekki tókst að manna nýja stjórn svo fundinum var frestað á nýjan leik.