Segir Reykjanesbæ ekki þurfa samþykki eftirlitsnefndar
„Reykjanesbær er ekki lengur til sérstakrar skoðunar hjá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Sennilega hefur félagsmálaráðherra ekki verið kunnugt um það þegar hann lét þessi orð falla á fundinum. Til að öllu sé haldið til haga mun Eftirlitsnefndin hins vegar fylgjast með þróun mála í Reykjanesbæ og fá ársfjórðungslegar skýrslur um fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Það á þó ekki að hafa áhrif á framgang hjúkrunarheimilis í Reykjanesbæ,“ sagði Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, inntur álits á svörum Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, um byggingu hjúkrunarheimilis í bæjarfélaginu.
Félagsmálaráðherra segir m.a. að nokkur sveitarfélög, Reykjanesbær þeirra á meðal, eigi eigi í erfiðleikum með að takast á hendur skuldbindinguna um byggingu hjúkrunarheimilis vegna bágrar fjárhagsstöðu. Félags-og tryggingamálaráðuneytið leiti leiða með samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að finna lausn til að gera þessum sveitarfélögum kleift að fara af stað í uppbyggingu hjúkrunarheimila
Böðvar segir að hjá minni sveitarfélögum sé bygging hjúkrunarheimilis mjög stórt verkefni í samanburði við stærð sveitarfélagsins og lántakan fyrir byggingu þess verði því mjög stór liður í efnahagsreikningi.
„Á þeim stöðum þarf að fá samþykki Eftirlitsnefndar fyrir lántökunni og það er til sérstakrar skoðunar nú. Slíkt á samt ekki við í tilfelli Reykjanesbæjar, Mosfellsbæjar, Kópavogs og hugsanlega fleiri sveitarfélaga sem eru að undirbúa þetta verkefni í samstarfi við ríkið,“ segir Böðvar.
Tengd frétt:
Nýtt hjúkrunarheimili: Skuldbindingin erfið vegna fjárhagsstöðu