Segir Jóhann upp störfum á morgun?
Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur boðað alla starfsmenn embættisins til fundar síðdegis á morgun. Í samtali við VF vildi Jóhann ekki tjá sig um efni fundarins. Hann játaði því hins vegar aðspurður hvort stórra tíðinda yrði að vænta af fundinum.
Greina má mikla undirliggjandi óánægju um öll Suðurnesin vegna þeirrar ákvörðunar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, að auglýsa stöðu lögreglustjóra eftir að skipunartími hans rennur út næsta vor. Vel yfir 800 einstaklingar hafa lýst yfir stuðningi sínum við Jóhann á Facebook en þar segir:
„Björn Bjarnason dómsmálaráðherra ætlar nú að losa sig við Jóhann R. Benediktsson úr starfi lögreglustjóra á Suðurnesjum vegna eigin geðþótta. Jóhann hefur í alla staði staðið sig vel í starfi og er afskaplega vel þokkaður af starfsmönnum embættisins og íbúum Suðurnesja.“
Svo virðast að almennt gefi fólk lítið fyrir útskýringar dómsmálaráðherra á málinu.
Stjórn Lögreglufélags Suðurnesja hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun dómsmálaráðherra í ályktun sem félagið sendi frá sér í byrjun vikunnar.
Þar segir að þessi ákvörðun dómsmálráðherra eigi sér engin fordæmi í stjórnsýslunni og feli í sér ekkert annað en uppsögn. Í ályktuninni er þess farið á leit við Björn Bjarnason að hann sýni tilhlýðilega virðingu fyrir störfum Jóhanns.