Segir ekki standa til að eyðileggja gígaröð
- Forstjóri HS Orku um framkvæmdir við Eldvörp
„Við viljum ganga mjög varlega um. Okkur er mjög annt um náttúruna,“ sagði Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS orku, um fyrirhugaðar framkvæmdir við Eldvörp í viðtali í útvarpsþættinum Í bítið á Bylgjunni á föstudagsmorgunn. Í viðtalinu kom einnig fram að ferðamennska og orkuvinnsla væru samtvinnuð og að þannig myndi það vera áfram. Grindavíkurbær hefur gefið út framkvæmdaleyfi til HS Orku til rannsóknaborana við Eldvörp og er áætlað að framkvæmdir hefjist á þessu ári. Stofnað hefur verið til undirskriftasöfnunar vegna framkvæmdanna og hafa um 2600 manns skrifað undir.
Aðspurður um áhyggjur fólks af því að til standi að eyðileggja svæðið kvaðst Ásgeir skilja þær áhyggjur en að það standi ekki til. Þá sagði Ásgeir sumt í umræðunni þess eðlis að hann telji það byggt á misskilningi. „Til dæmis að það eigi að eyðileggja gígaröðina. Það er það nærtækasta. Síðan er talað um að það eigi að skemma ósnortið hraun. Það er ekki hægt að gera neitt á Reykjanesskaganum því það er þakið hrauni. Við þurfum að passa hvar við gerum það og hvar ekki. Margar mikilvægustu ákvarðanir sem við tökum eru um það hvað við gerum ekki,“ sagi hann.
Veitt hefur verið heimild til HS Orku til að gera fimm borteiga við Eldvörp. Ásgeir segir það breyta ásýnd svæðisins eitthvað þar sem borteigarnir muni sjást. „Hvort þeir breyti því mikið er bara matsatriði. Ég er ekki sammála því sjálfur. Þeir eru að vísu gerðir úr sams konar efni og hraunið og felldir vel inn í landslagið.“
Í máli Ásgeirs kom einnig fram að með framkvæmdunum væri verið að halda áfram um það bil 40 ára langri þróun sem hefur átt sér stað á svæðinu í kringum Svartsengi. Hann sagði þróunina hafa byrjað á sínum tíma til að finna heitt vatn, fyrst og fremst til að hita upp hús í Grindavík og víðar á Reykjanesinu. Þá nefndi Ásgeir að orka af svæðinu hafi verið notuð á öðrum sviðum, svo sem til fiskeldis, eldsneytisframleiðslu, fiskþurrkunar, gróðurhúsa og í Bláa lónið. Hann benti á að þörf væri á orku, því hagkerfið, ferðaiðnaður, iðnaður og atvinnustarfsemi væri að vaxa. „Öll þurfum við rafmagn. Markaðurinn þarf rafmagn. Það er verið að leita að tækifæri til að þjóna þeirri eftirspurn.“ Hann benti einnig á að fyrirhugaðar framkvæmdir hafðu farið í gegnum umhverfismat og aðal- og deiliskipulag og að enginn hafi lagt fram kæru. Opnir fundir hafi verið haldnir en þeir verið fámennir.
Boruð var hola við Eldvörp árið 1983 og segir Ásgeir hana draga að sér ferðamenn í dag og að erlendir ferðamann hafi mikla ánægju af að skoða orkuver á Íslandi því þau framleiði græna orku.