Segir bætur og lágmarkslaun undir mörkum
Bæði lágmarkslaun og atvinnuleysisbætur eru undir lágtekjumörkum og því eiga þeir sem hafa aðeins þessar ráðstöfunartekjur á hættu að verða fátækt að bráð. Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segist í samtali við Ríkisútvarpið í dag, ekki áður hafa orðið vitni að jafn erfiðri stöðu lágtekjufólks.
Lágmarkslaun samkvæmt samningum Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins eru rétt rúmar eitt hundrað og fimmtíu þúsund krónur. Fullar atvinnuleysisbætur eru aðeins lægri. Samkvæmt útreikningum Evrópusambandsins þarf einstaklingur að hafa meira en eitt hundrað og sextíu þúsund krónur á mánuði til að eiga ekki í hættu á að verða fátækur.
Kristján Gunnarsson segir ekki gott hve lág lægstu launin eru. Hann segir að þó stór hópur sé með hærri heildarlaun en lágmarkslaunin séu margir á lægstu laununum, einkum þeir sem vinna umönnunarstörf. Mjög algengt sé að fólki gefist aðeins kostur á hlutastarfi. Þar sé staðan afar alvarleg og mjög erfitt hjá fólki að draga fram lífið við þær aðstæður.
Kristján segir að mikil áhersla hafi verið lögð á að hífa upp lægstu launin en launþegar hafi mætt ákveðinni fyrirstöðu því alls kyns bætur miðist við þau. Hann segist daglega heyra í félagsmönnum sem eigi erfitt með að lifa af lágmarkslaunum. Hann segir stöðu lágtekjufólks ömurlega.