Segir bæjarstjórastarfið spennandi áskorun
Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, formaður bæjarráðs og staðgengill bæjarstjóra Reykjanesbæjar, hefur tekið við stjórnartaumum til áramóta meðan Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri er í veikindaleyfi.
Halldóra, sem hefur búið í sveitarfélaginu síðan hún var sautján ára, er menntaður grunnskólakennari með framhaldsmenntun í sérkennslufræðum. Á vef Reykjanesbæjar geta bæjarbúar kynnt sér Halldóru Fríðu og hvernig hún ætlar að takast á við verkefnið til áramóta en hún segir bæjarstjórastarfið spennandi áskorun.
Halldóra hefur verið virk í bæjarpólitíkinni síðan 2018 og hefur einnig tekið sæti sem varaþingmaður á Alþingi. Hún er spennt fyrir áskorunum í starfi bæjarstjóra og leggur áherslu á að mæta þeim með jákvæðu viðhorfi og opnum huga.
„Ég mun ekki hafa svör við öllu, en sem betur fer eru ótrúlega hæfir stjórnendur hjá sveitarfélaginu,“ segir hún.
Nánar má lesa um staðgengil bæjarstjóra hér.