Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Segir ásýnd svæðisins gjöreyðilagða
    Eldvörp eru um 10 kílómetra löng gígaröð norðvestur af Grindavík. Þar eru stórir gígar og verulegur jarðhiti og gufuuppstreymi mikið. Í gamla daga var þar bakað brauð í einum gígnum og liggur einmitt Brauðstígur þangað frá Grindavík. Gígaröðin myndaðist í
  • Segir ásýnd svæðisins gjöreyðilagða
    Ellert Grétarsson, baráttumaður fyrir náttúruvernd á Reykjanesi.
Fimmtudagur 7. janúar 2016 kl. 15:33

Segir ásýnd svæðisins gjöreyðilagða

„Við skulum ekki gleyma því að ósnortin náttúra er líka náttúruauðlind, ekki síst á tímum vaxandi ferðaþjónustu þar sem yfir 80 prósent erlendra ferðamanna koma til Íslands til að upplifa ósnortna náttúru,“ segir Ellert Grétarsson, baráttumaður fyrir náttúruvernd á Reykjanesskaga. Hann skrifaði blogg á vef Stundarinnar 12. desember síðastliðinn um fyrirhugaðar framkvæmdir HS Orku við Eldvörp sem áætlað er að hefjist á næsta ári. 
 
Ellert segir ljóst að greinin ásamt myndbandi hafi hreyft við fólki því horft hefur verið á myndbandið rúmlega 8000 sinnum og tæplega 3000 manns hafa „líkað við“ greinina. „Nýting náttúruauðlindar felst ekki eingöngu í því að bora hana í tætlur eða sökkva í uppistöðulón. Hér erum við að tala um annars konar nýtingu sem skilar meiru í þjóðarbúið en stóriðja og virkjanir. Jafnvel þó að ekki verði hróflað við gígaröðinni sjálfri með framkvæmdunum þá gefur það auga leið að ef hún er römmuð inn með fimm gríðarstórum borteigum hefur ásýnd svæðisins og upplifunin af því verið gjöreyðilögð.“
 
Grindavíkurbær hefur þegar veitt HS Orku framkvæmdaleyfi við Eldvörp. Í áliti Skipulagsstofnunar frá 22. september 2014 segir meðal annars að framkvæmdirnar muni koma til með að rýra verndargildi landslags á svæðinu að einhverju leyti og geti sjónræn áhrif, áhrif á landslag og jarðmyndanir verið til langs tíma og að nokkru óafturkræf.
 
UNESCO setti Reykjanesið á lista yfir 120 áhugaverðustu jarðvanga í heimi á síðasta ári. Ellert telur að staða náttúru- og umhverfisverndar á Reykjanesskaga hafi aldrei verið verri en nú, sé miðað við þau tíu ár sem hann hafi fylgst náið með málum. „Landsnet stefnir nú að því að leggja risavaxna háspennulínu eftir endilöngum Reykjanesskaganum og hefur þjösnast á móti því að leggja jarðstrengi. Ég veit ekki hvort fólk geri sér grein fyrir því að þessi lína mun til dæmis gnæfa yfir tvö helstu útivistarsvæði Suðurnesjamanna við Sólbrekkuskóg og Háabjalla. Þá er ljóst að menn stefna að því að virkja allt sem hægt er að virkja en ef villtustu draumar HS Orku og OR verða að veruleika þá verður í framtíðinni ein samfelld virkjanaröð á Reykjanesskaganum frá Reykjanestá að Þingvallavatni. Í Rammaáætlun fóru aðeins þrjú svæði af nítján í verndarflokk, samt vilja menn fá þessu þrjú til mats í þriðja áfanga rammaáætlunar. Engu skal eirt. Síðan munu risavaxnir stóriðjustrompar í Helguvík varða sjóndeildarhringinn ásamt háspennulínunum við innganginn í landið.“

  Ellert segir það skjóta skökku við að á sama tíma og bæjaryfirvöld í Grindavík hafi talað um uppbyggingu ferðaþjónustu og fræðslu sem byggi á einstökum jarðminjum sé HS Orku veitt leyfi til rannsóknarborana við merkustu jarðminjar svæðisins.
 
Aðspurður um sérstöðu svæðisins segir Ellert að í jarðsögu Íslands hafi sprungugos flest orðið undir jökli og skilið eftir móbergsmyndanir eins og hina áhugaverðu móbergshryggi en slíkar jarðmyndanir finnist hvergi annars staðar í heiminum. „Enn fátíðari eru gígaraðir sem myndast hafa á nútíma eða eftir að ísaldarjöklarnir hurfu. Eldvörp eru eins konar smækkuð útgáfa af Lakagígum, frægustu gígaröð landsins og eru á náttúruminjaskrá. Gígaröðin, sem er um 10 kílómetra löng, myndaðist í Reykjaneseldum á 13. öld og er glöggur vitnisburður um eldvirkni á mótum tveggja jarðskorpufleka en hvergi í heiminum má sjá jafn skýr ummerki slíks fyrirbæris á þurru landi. Mikil verðmæti felast þess vegna í því að eiga slíka náttúru tiltölulega ósnortna í nágrenni við þéttbýlið, meðal annars með tilliti til möguleika í ferðaþjónustu og útivist, eins og Skipulagsstofnun tók undir í umsögn sinni.“
 
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024