Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sunnudagur 2. desember 2001 kl. 00:06

Segir árásina í Garði hafa verið sjálfsvörn

Ungi maðurinn sem veittist að dreng í Garði vegna þess að snjóbolta var kastað í bifreið hans, segir að hann hafi lamið og sparkað í drenginn í sjálfsvörn.Maðurinn hafði samband við Víkurfréttir í kjölfar umræðu um árásina hér á fréttavef Víkurfrétta og í fréttum Ríkisútvarpsins og á netmiðlum Morgunblaðsins og Vísis. Hann sagði að hópur 50 ungmenna hafi verið samankominn við Garðbrautina ofan Gerðaskóla í Garði og hafi snjóboltum verið kastað frá hópnum í bíl hans þegar hann ók hjá. Maðurinn segist ekki hafa ekið inn í hópinn, heldur hafi hópurinn tvístrast eftir að hafa kastað í bílinn. Hann hafi hins vegar hafa ekið á eftir einum drengnum en stöðvað hálfan eða einn metra frá honum.

Orðrétt segir síðan: „Ég stoppaði hálfan eða einn metra frá honum og þá steig hann fram eitt skref og barði í húddið á bílnum. Ég fór út úr bílnum og ætlaði að tala við hann en þá lamdi hann mig. Ég kýldi hann á móti. Þetta var bara sjálfsvörn hjá mér. Hann ætlaði að gera eitthvað meira en ég var fljótari til og sparkaði í hann. Eftir þetta fór ég aftur upp í bílinn og keyrði í burtu“.

Maðurinn segist hafa haft farþega með sér sem geti staðfest þetta. Hann segist hafa farið á bíl sínum á milli Garðs og Keflavíkur að sinna erindum en komið til baka einum og hálfum tíma síðar. Þá hafi hann séð sjúkrabíl utan við bensínstöðina í Garði og haldið að þar hafi orðið umferðarslys. Hann hafi komið á staðinn og þá hafi móðir drengsins komið að sér og spurt hvað hann hafi gert drengnum.

Blaðamaður endurtók atburðarásina eins og meintur árásarmaður lýsti henni:

- Þú komst akandi Garðbrautina og á móts við Gerðaskóla kastaði hópur ungmenna snjóbiltum í bílinn og hlutu í burtu. Þú fórt á eftir þeim og stöðvaðir hálfan til einn metra frá stráknum sem síðan lamdi í húddið á bílnum?

„Já“.

- Og þú fórst úr úr bílnum og þá lamdi hann þig og þú kýldir hann á móti?

„Já“.

- Og svo sparkar þú í hann?

„Já, hann ætlaði að fara gera eitthvað en ég varð fyrri til og sparkaði í hann. Þetta var ekkert annað en sjálfsvörn hjá mér. Þetta mál er algjört kjaftæði. Þarna voru 50 krakkar og hver hefur sagt þrjár sögur. Ég er örugglega búinn að heyra 150 mismunandi sögur í dag“.

Eins og fram kom hér á vefnum í gær er mikil reiði á meðal íbúa í byggðarlaginu vegna þessa máls. Aðili sem talaði við Víkurfréttir sagðist vilja koma af stað undirskriftum til að koma ofbeldismönnum í burtu úr sveitarfélaginu. Það er ljóst að ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu máli en lögregluskýrsla um málið var ekki tilbúin þegar Víkurfréttir höfðu samband við lögregluna á föstudag og varðist lögreglan allra frétta og sagðist engar upplýsingar veita fyrr en á mánudag.

Ekki hafa fengist fréttir af líðan drengsins sem varð fyrir árásinni. Hann var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024