Segir 16 ára unglinga eiga greiða leið inn á vínveitingastaði
Það er ekkert mál fyrir 16 ára unglinga og jafnvel yngri að fara inn á flesta skemmtistaði í Reykjanesbæ, þau þurfa bara að eiga pening. Ekki nóg með það heldur fá þau afgreiðslu á barnum líka, málið er bara að eiga aur. Þetta fullyrðir Erlingur Jónsson hjá Lundi í grein í Víkurfréttum í dag. Hann spyr um eftirlit og segir forvörnum á Suðurnesjum mjög ábótavant.
Samkvæmt samkomulagi sem veitingamenn í Reykjanesbæ gerðu við Reykjanesbæ og Lögregluna á Suðurnesjum sumarið 2007 skulu allir dyraverðir vera samþykktir af lögreglustjóra. Lögreglan hefur í langan tíma haldið uppi reglubundnu eftirliti á skemmtistöðunum í samstarfi við Útideild Reykjanesbæjar til að reyna sporna við því að of ungir sé inni á þessum stöðum eða reyni að komast þar inn.
Í samtali Víkurfrétta við lögregluna kom fram að þar á bæ er reynt að sporna við þessu að ungmenni séu ekki á þessum stöðum en einhverja hluta vegna virðast þau komast þarna inn. Lögreglunni berast reglulega ábendingar að ungmennin séu á skemmtistöðunum. Hins vegar geti lögreglan ekki verið á stöðunum öllum stundum til að fylgjast með.
Lögreglan og Reykjanesbær eru þessa dagana að kalla til veitingamenn í Reykjanesbæ og fara yfir þessa hluti varðandi hert eftirlit, endurnýjun á samkomulaginu og að tekið sé hart á eftirlitinu og aukin ábyrgð sett á hvern stað fyrir sig varðandi alla þá þætti sem þurfa að vera í lagi, eins og til dæmis með aldur gesta, samþykkta dyraverði, opnunartíma, veita ekki áfengi til þeirra sem eru ekki orðnir 20 ára og að áfengi skuli ekki borið inn né út af staðnum. Lögreglan gerir veitingamönnum grein fyrir því að gerist þeir brotlegir gagnvart ofangreindum atriðum þá verði tekið á því með viðeigandi hætti til dæmis í formi sekta, skriflegra áminninga eða leyfissviptinga í styttri eða lengri tíma.
Falsa skilríki
Dæmi eru um að ungmenni séu að falsa skílríki frá öðrum, til dæmis frá eldri vinum eða systkinum. Lögreglan segir að í einhverjum tilvikum nái dyraverðir ekki að greina það að viðkomandi skilríki sé falsað eða að sá sem framvísar því sé sá sem er á skilríkinu. Í einhverjum tilvikum hafa dyraverðir kallað til lögreglu vegna falsaðra skilríkja, eða vegna misnotkunar á skilríkjum.
Þegar lögreglan ræðir við ungmenni í skólum eða á öðrum vettvangi þá gerir hún þeim grein fyrir að fölsun skilríkja sé brot og við því sé hægt að beita viðurlögum. Slík mál færast inn á sakavottorð þeirra.
Aldur til að neyta áfengis
Misskilnings virðist gæta hjá mörgum ungmennum með það að þau megi kaupa áfengi á barnum þar sem 18 ára aldurstakmark er inn á skemmtistaðinn. Í heimsóknum í skóla á svæðinu hefur lögreglan rætt þessi mál við ungmenni. Lögreglan gerir ungmennunum grein fyrir því hvenær þau mega sækja skemmtistaðina og hvenær þau mega neyta áfengis. Það þýði ekki að þó svo þau séu komin með aldur til að sækja skemmtistaðina að þau megi neyta áfengi. Það virðist vera einhver misskilningur hjá þeim með þessa hluti.
Lögreglan segir það alveg skýrt í þessum efnum að ábyrgð og hlutverk dyravarða og starfsfólks á bar er alveg ljóst. Þeirra hlutverk sé að kanna með aldur gesta inn á staðinn og hvort þau hafa aldur til að versla áfengi á barnum. Hlutverk þeirra er að krefja viðkomandi um skilríki ef þau eru ekki viss um aldur þess sem reynir að komast inn eða þess sem ætlar að versla áfengi á barnum.
Það sé síðan hlutverk lögreglu að hafa eftirlit með þessum hlutum.
Eftirfarandi er bréf Erlings Jónssonar, sem birt er í Víkurfréttum í dag:
16 ára inn á skemmtistaðina í Reykjanesbæ
Það er ekkert mál fyrir 16 ára unglinga og jafnvel yngri að fara inn á flesta skemmtistaði í Reykjanesbæ, þau þurfa bara að eiga PENING.
Hummm.... ert þetta í lagi ?
Mér hefur verið tjáð, já og það nokkuð oft að svo ungir krakkar fái að fara inn á staðina, ekki nóg með það heldur fá þau afgreiðslu á barnum líka, málið er bara að eiga aur. Þetta er kaldhæðnislegt þar sem allt snýst orðið um peninga, siðferðið er ekkert, bara plokka augun úr næsta manni. Ég ræddi um þetta við unga stúlku, sagðist hún hafa farið inn á þessa staði ásamt vinkonu sinni, við erum að tala um 13 ára gömul börn í þetta skiptið, það ekkert mál að komast inn sögðu þær. 21 árs stúlka segist varla nenna orðið að fara á suma staðina, henni finnst hún bara GÖMUL innan um þessi börn, eins og hún orðaði það.
Hvar er siðferðiskenndin spyr ég ?
Segja þau að dyraverðirnir hleypa þeim inn fyrir greiðslu og barþjónarnir afgreiða þau með áfengi.
Það er greinilegt að EIGENDUR skemmtistaðanna sjá bara það sem þeir vilja sjá, PENINGANA, virða svo hvorki lög né reglur.
Hvar er eftirlitið, LÖGREGLAN, FORELDRARNIR?
Hver á að sjá um eftirlit og fylgjast með þessu ?
Ég er harðorður í þessu bréfi, en mér er líka annt um unga fólkið í bænum mínum, hef miklar áhyggjur af þróun mála í þessum efnum.
Ég veit til þess að í undirbúningi er fundur með veitingamönnum vegna hinna ýmsu mála sem að þeim snýr, vona ég að þessi mál verði þar í forgangi. Þetta er bæði ólöglegt og algjörlega siðlaust, það hlýtur að vera á ábyrgð eigenda skemmtistaðanna að sjá til þess að svo ung börn komist EKKI inn á þeirra staði, svo og að hafa dyraverði sem eru starfi sínu vaxnir.
Forvörnum á Suðurnesjum er mjög ábótavant, það er mikil þörf á fræðslu og ráðgjöf fyrir almenning. Það er líka þörf á enn meiri stuðningi fyrir þá sem hafa og eru að taka sig á, hvort sem um er að ræða alkóhólista, fíkla eða aðstandendur.
Nú eru kosningar framundan, vona ég að einhver þingmanna okkar muni sýna þessu áhuga. Oft er þörf – nú er nauðsyn.
Góð kveðja
Erlingur Jónsson í síma 772-5463
www.lundur.net