Sautján í einangrun eftir kórónuveirusmit í Sandgerði
Tólf nemendur í leikskóla og grunnskóla í Sandgerði eru í einangrun með kórónuveirusmit. Tíu börn í sömu skólum eru í sóttkví. Fimm starfsmenn þessara stofnana eru í einangrun, þannig að sautján einstaklingar eru í einangrun eftir smit sem komu upp í lok síðustu viku.
Metdagur í sýnatökum var í gær hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þegar tæplega 450 einstaklingar mættu í sýnatöku. Af þeim reyndust þrettán vera með smit. Á sama tíma losnuðu fjölmargir úr sóttkví með neikvæða niðurstöðu úr sýnatöku.
Leikskólinn Sólborg í Sandgerði verður opinn á morgun, miðvikudag. Þá mæta nemendur yngri bekkja í Sandgerðisskóla á morgun.
„Við teljum að sú aðgerð að loka skólunum og öðrum stofnunum á föstudaginn og fram yfir helgina hafi komið í veg fyrir að smit breiddust út meira en raun ber vitni,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ í samtali við Víkurfréttir.