Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Saurgerlamengun talsvert yfir umhverfismörkum í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 31. júlí 2014 kl. 09:44

Saurgerlamengun talsvert yfir umhverfismörkum í Reykjanesbæ

Strandsjórinn við Reykjanesbæ er töluvert mengaður og að sögn Magnúsar H. Guðjónssonar framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja þyrftu bæjaryfirvöld að bregðast við og ráðast í að reisa hreinsistöð. Verst er ástandið við gömlu bryggjuna sem stóð við Duus-hús hér áður fyrr, en einnig er slæmt ástand við Vatnsenda.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gaf nýverið út mælingar á saurgerlamengun í sjó við Reykjanes og er ástandið óviðunandi við Norðfjörðsbryggju í Keflavík, en þar mælist saurgerlamengun mun meiri en á öðrum svæðum á Suðurnesjunum. Ástæðan er margþætt en mestu skiptir að engin skólphreinsistöð er til staðar eins og á flestum öðrum stöðum svæðisins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Varðandi ástandið í sjónum við Norðfjörðsgötu segir Magnús að ekki sé óeðlilegt að það sé mikil saurgerlamengun þar sem ekkert hreinsunarkerfi er til staðar. „Þarna koma stórar skólpleiðslur út og gríðarlegt magn af skólpi fer þarna í gegn, frá um 10.000 manns. Þegar engin hreinsun á sér stað verður saurgerlamengun í kjölfarið mikil. Verið er að fylgjast stöðugt með þróuninni og eru sýni tekin reglulega með ákveðnum GPS punktum sem alltaf eru á sama staðnum. Ófullnægjandi ástand telst ef saurgerlar mælast fleiri en 1000 á hverja 100 ml í hverri sýnatöku en svæðið neðan við Duus mælist með 24.000 saurgerla á hverja 100 ml. Ástandið kann að vera ófullnægjandi en er þó ekki hættulegt. Oft fýkur sjávarrokið og með því berast saurgerlarnir upp á land. Ekki er allt svæðið í kringum gömlu bryggjuna mengað en smábátahöfnin í Keflavík hefur verið hreinsuð og mælist engin saurgerlamengun þar.

Reykjanesbær kemur verst út á listanum sem nær yfir alla strandlengjuna á Suðurnesjum. Að sögn Magnúsar á það sér eðlilega skýringu en Reykjanesbær er langstærsta sveitarfélag á svæðinu og þar af leiðandi með mesta skólpið sem safnast á einn stað. Ekki eru þó allir staðir í Reykjanesbæ með saurgerlamengun en Stakksfjörðurinn, Njarðvíkurhöfn og Fitjar hafa tæran sjó vegna þess að þar fer skólpið í gegnum hreinsistöðina í Njarðvík.

Bæjaryfirvöld hafa verið að stíga skref í rétta átt og er Reykjanesbær í raun ekki að standa sig verr en önnur sveitarfélög af svipaðri stærð annars staðar á landinu, að mati Magnúsar. „Það eru ekki mörg bæjarfélög sem eru með þetta í fullkomnu standi enda eru þessar framkvæmdir dýrar og reksturinn líka. Þetta mál er sjaldan sett ofarlega á forgangslistann í bæjarstjórn en ég vil að sjálfsögðu hvetja bæjayfirvöld til þess að gera sitt í því að hafa strandlengjuna okkar hreina,“ segir Magnús.