Sáu fram á 10 km göngu eftir slys í Keili

Þyrla Landhelgisgæslunnar var fengin til að sækja slasaða fjallgöngukonu í Keili í dag. Sjúkraflutningamenn úr Reykjanesbæ og björgunarsveitir voru fyrst kallaðar til að sækja konuna.

Upplýsingar um slysstaðinn voru óljósar í fyrstu en viðbragðsaðilar þurftu að ganga í um 40 mínútur frá bílastæði í nágrenni við fjallið Keili til að komast að konu sem hafði slasast í fjallinu.

Leiðin er mjög þung yfirferðar og því var ákveðið að óska eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar til að sækja hinn slasaða, því viðbragðsaðilar sáu fram á að gangan að slysstaðnum og til baka væri um 10 kílómetrar.

Sjúkraflutningamenn og björgunarsveitarfólk hlúðu að og bjuggu hinn slasaða undir flutning og svo tók áhöfn þyrlunnar við verkefninu.