Sátu fyrsta fundinn í sameinuðu sveitarfélagi
Bæjarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis kom saman til fyrsta fundar í gær en fundurinn fór fram í Ráðhúsinu í Garði. Unnið er að því að standsetja fundaraðstöðu fyrir bæjarstjórn í Ráðhúsinu í Sandgerði en þar til mun bæjarstjórnin funda í Garði. Gert er ráð fyrir að til framtíðar verði fundir bæjarstjórnar í Sandgerði en bæjarráð mun funda í Garði.
Fundinn í gær sátu þau Einar Jón Pálsson D- lista, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir D- lista, Haraldur Helgason D- lista, Ólafur Þór Ólafsson J- lista, Laufey Erlendsdóttir J- lista, Fríða Stefánsdóttir J- lista, Magnús Sigfús Magnússon H- lista, Pálmi Steinar Guðmundsson H- lista og Daði Bergþórsson B- lista. Fundargerð fyrsta fundar bæjarstjórnar ritaði Guðjón Þ. Kristjánsson en hann hafði áður ritað fundargerðir Sandgerðisbæjar og verður ritari bæjarstjórnar þar til annað hefur verið ákveðið.
Til fundarins í gær, 20. júní, var boðað af þeim bæjafulltrúa sem setið hefur lengst í bæjarstjórn og þar sem tveir hafa setið jafnlengi var boðað til fundarins af þeim er eldri er en það er Einar Jón Pálsson.
Í upphafi fundar voru nýir bæjarfulltrúar boðnir velkomnir með ósk um gott og farsælt samstarf á kjörtímabilinu sem framundan er sem er það fyrsta í sögu hins nýja sveitarfélags.
Í bæjarstjórn sameinaðs sveitarfélags eru níu bæjarfulltrúar. Þeir hafa allir setið áður annað hvort í bæjarstjórn Garðs eða Sandgerðis að undarskildum Haraldi Helgasyni, sem er nýr í sveitarstjórnarmálum.
Á myndinni eru bæjarfulltrúarnir sem sátu fyrsta fundinn. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson