Sat föst eftir snúning á Keflavíkurflugvelli
Vöruflutningavél á vegum flugfélagsins Silkway sat föst á suðurenda Keflavíkurflugvallar síðdegis í dag. Þar stóð vélin í þó nokkurn tíma áður en tókst að losa um festuna og koma vélinni í loftið.
Vegna atviksins þurftu tvær einkaflugvélar að snúa frá Keflavíkurflugvelli og lenda í Reykjavík.
Vöruflutningavélin, sem er af gerðinni Boeing 747, var að undirbúa flugtak. Henni var ekið að brautarendanum og þegar snúa átti vélinni í flugtaksstefnu sat allt fast.
Engar skemmdir urðu á vélinni. Aðallega var stolt flugmanna þessarar drottningar háloftanna sært þegar vélin komst ekki lönd né strönd.
Meðfylgjandi myndir tók ljósmyndari Víkurfrétta síðdegis.