„Sárt að horfa á fullfríska menn bogna“
Þingmaður segir ótta og óróa meðal starfsmanna Isavia.
„Þeir sátu einir á móti tveimur yfirmönnum þegar þeim voru sögð ótíðindin og muna varla orð af því sem sagt var vegna áfalls yfir fréttunum. Trúnaðarmaður var ekki boðaður til stuðnings mönnunum. Það er sárt að horfa á fullfríska menn bogna vegna harkalegra aðgerða yfirmanna sem hvergi þurfa að standa skil á verkum sínum. Fjölskyldur þeirra, börn og foreldrar brotna, öryggi heimilisins hverfur og eftir sitja góðir menn í þoku vonleysis og kvíða. Á sama tíma líðst yfirmönnum fyrirtækisins að ganga hart fram í starfsmannamálum og brjóta eigin reglur um siðferði og meðferð fjármuna fyrirtækisins og misnota aðstöðu sína meðan vammlausum starfsmönnum er sagt upp störfum án þess að hafa nokkuð til saka unnið. Í þessu sorglega máli og fleirum þar sem yfirmenn í opinberu fyrirtæki ganga hart fram og af offorsi við starfsmenn er úrbóta þörf.Virðulegi forseti. Ég trúi því að réttlætið sigri ranglætið í þessu máli,“ sagði Ásmundur Friðriksson, þingmaður sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, í umræðu um störf þingsins í gær.
Starfsmönnum sagt upp fyrirvaralaust
Ásmundur sagði fjölmennasta vinnustað á Suðurnesjum, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem flestir af 800 starfsmönnum Isavia starfa, vera undanskilinn þeim góða anda sem ríki í atvinnulífinu á Suðurnesjum og bjartsýni sem ríki þar á vinnumarkaði. „Í stuttri sögu Isavia hefur mörgum starfsmönnum verið sagt upp störfum fyrirvaralaust með mjög hörðum aðgerðum, en á mörgum starfsstöðvum fyrirtækisins ríkir ótti og órói á meðal starfsmanna. Fyrirtækið hefur á fáum árum tapað nokkrum málum í Hæstarétti vegna ólöglegrar brottvikningar fólks úr starfi. Þá eru undir 50% starfsmanna ánægð í starfi í fyrirtækinu samkvæmt ánægjukönnun sem fyrirtækið hefur látið gera. Segir það þunga sögu og er mikið áhyggjuefni.“