Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Sara Lind dúx á haustönn FS
Sara Lind Ingvarsdóttir, dúx FS á haustönn 2014. VF-myndir/pket.
Sunnudagur 21. desember 2014 kl. 12:42

Sara Lind dúx á haustönn FS

Sara Lind Ingvarsdóttir var dúx Fjölbrautaskóla Suðurnesja á haustönn 2014 en útskrift var á sal FS í gær. Mjótt var á mununum hjá efstu nemendunum því Alexía Rós Viktorsdóttir var með aðeins þremur hundruðustu lægri meðaleinkunn en Sara. Stærstur hluti stúdenta í þessum hópi var að ljúka stúdentsprófi á þremur og hálfu ári og árangur var afar góður.  Að þessu sinni útskrifaðist 61 nemandi; 53 stúdentar, einn af starfsbraut, fimm úr verknámi og fjórir úr starfsnámi. Nokkrir útskrifuðust af tveimur brautum. Konur voru 36 og karlar 25. Alls komu 47 úr Reykjanesbæ, 8 úr Grindavík, 3 úr Sandgerði, tveir úr Vogum og einn úr Garði.

Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti prófskírteini og flutti ávarp og Guðlaug Pálsdóttir aðstoðarskólameistari flutti yfirlit yfir störf annarinnar.  Hera Ketilsdóttir nýstúdent flutti ávarp fyrir hönd brautskráðra og Þorvaldur Sigurðsson kennari flutti útskriftarnemendum kveðjuræðu starfsfólks.  Nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fluttu tónlist en Bryndís Sunna Guðmundsdóttir nýstúdent söng tvö lög og Atli Marcher Pálsson nýstúdent lék á rafbassa.  Kristján Karl Bragason lék undir á píanó og Guðbjörg Guðmundsdóttir söng dúett með Bryndísi í öðru laginu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur.  Arna Lind Kristinsdóttir og Haraldur Jónsson fengu viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda, Erla Sigurjónsdóttir  og Hafdís Birta Johansson fyrir ensku, Jón Ágúst Guðmundsson fyrir efnafræði, Guðrún Eva Níelsdóttir fyrir sálar- og uppeldisfræði og Elín Sara Færseth fyrir bókfærslu.  Sigurlaug Herdís Friðriksdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði hjá nemanda á félagsfræðibraut og Domínika Wróblewska fékk gjöf frá þýska sendiráðinu fyrir góðan árangur í þýsku. Hera Ketilsdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur sinn í sálar- og uppeldisfræði og spænsku og Thelma Hrund Tryggvadóttir fyrir bókfærslu og góðan árangur í viðskipta- og hagfræðigreinum.  Kristófer Sigurðsson fékk verðlaun fyrir spænsku og stærðfræði og hann fékk einnig gjafir frá Verkfræðistofu Suðurnesja og Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir árangur sinn í stærðfræði.  Skapti Benjamín Jónsson fékk viðurkenningar fyrir stærðfræði, ensku og spænsku.  Þá fékk Andrea Björt Ólafsdóttir sex viðurkenningar fyrir námsárangur sinn, fyrir ensku, spænsku, líffæra- og lífeðlisfræði, efnafræði og stærðfærði og frá Þekkingarsetri Suðurnesja fyrir árangur sinn í líffræði.  Sara Lind Ingvarsdóttir hlaut viðurkenningar fyrir árangur sinn í efnafræði, stærðfræði, ensku og spænsku.  Þá fékk hún gjafir frá Verkfræðistofu Suðurnesja og Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir góðan árangur í stærðfræði og frá Danska sendiráðinu fyrir árangur sinn í dönsku. Sara Lind fékk einnig gjöf frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum.  Alexía Rós Viktorsdóttir fékk viðurkenningar frá skólanum fyrir góðan námsárangur í efnafræði, stærðfræði, ensku og spænsku.  Alexía fékk gjafir frá Verkfræðistofu Suðurnesja og  Íslenska stærðfræðifélaginu fyrir árangur í stærðfræði og frá Danska sendiráðinu fyrir góðan árangur í dönsku. Hún fékk síðan verðlaun frá Landsbankanum fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum og einnig fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum.  Kristján Ásmundsson skólameistari afhenti 100.000 kr. námsstyrk úr skólasjóði en hann er veittur til þess nemanda sem er með hæstu meðaleinkunn við útskrift og hlaut Sara Lind Ingvarsdóttir styrkinn.  Sara Lind fékk einnig 30.000 kr. styrk frá Landsbankanum.

Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti við athöfnina styrki úr styrktarsjóði Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Sjóðurinn var stofnaður af Kaupfélagi Suðurnesja og Gunnari Sveinssyni, fyrrverandi kaupfélagsstjóra og fyrsta formanni skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurnesja.  Tilgangur sjóðsins er að efla og auka veg skólans með því að styrkja nemendur skólans til náms, að styðja við starfsemi sem eflir og styrkir félagsþroska nemenda og að veita útskriftarnemendum viðurkenningar fyrir frábæran árangur í námi og starfi.  Þær Elín Pálsdóttir, Katrín Lóa Sigurðardóttir, Selma Rut Ómarsdóttir og Karen Ýr Eysteinsdóttir fengu allar 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku.
Við lok athafnarinnar veitti skólameistari Birni Sturlaugssyni gullmerki FS en hann hefur starfað við skólann í 25 ár.

Sara Lind og Alexía Rós Viktorsdóttir en mjög litlu munaði á einkunnum þeirra, eða þremur hundruðustu.

Árangur var mjög góður og verðlaunahópurinn því stór.

Kristján Ásmundsson skólameistari FS óskaði útskriftarnemum til hamingju.

Hvítu húfurnar komnar upp.

Sara Lind með fjölskyldu sinni eftir útskriftarhátíðina í FS.

Alexía með hluta fjölskyldunnar.

Kristján nældi gullmerki skólans í barm Björns Sturlaugssonar en hann hefur starfað í FS í aldarfjórðung.

Þær Elín Pálsdóttir, Katrín Lóa Sigurðardóttir, Selma Rut Ómarsdóttir og Karen Ýr Eysteinsdóttir fengu allar 20.000 kr. styrk fyrir góða frammistöðu í lífsleikni og ræðumennsku úr styrktarsjóði FS. Ragnheiður Gunnarsdóttir afhenti styrkina.

Oddgeir Karlsson ljósmyndari mundaði myndavélina að venju á útskrift FS.