SAR: Vinnur að því að skapa atvinnu og koma af stað nýjum verkefnum
Yfir eitthundrað aðilar í Samtökum atvinnurekenda á Reykjanesi
„Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi voru stofnuð í maí 2010 í þeim tilgangi að reyna að skapa atvinnu með hlutaðeigandi aðilum. Stofnaðilar voru 31 en í dag eru aðildarfélög vel yfir 100 með aðkomu Meistarafélags byggingamanna á Suðurnesjum og Ferðamálasamtökum Suðurnesja en þau gengu í raðir SAR fyrir nokkru.
Guðmundur Pétursson er formaður félagsins. Margir spyrja, hvers vegna SAR?
„SAR eru samtök sem eru að vinna með fyrirtækjum, sveitarfélögum, stofnunum og ríkisstjórnum í að skapa atvinnu og koma af stað nýjum verkefnum á Reykjanesi í samráði og samvinnu við hlutaðeigandi aðila. Með því að ganga í samtökin þá er verið að stuðla að auknum framgangi og samstarfi milli aðila á svæðinu,“ segir Guðmundur.
Frá árinu 2010 hefur SAR komið að fjölmörgum verkefnum, unnið með aðilum að koma verkefnum í farveg. Helstu verkefni SAR framundan er undirbúningur að atvinnumálafundum í öllum sveitarfélögum seinnipart í nóvember. Í dag er í gangi vinnuhópur á vegum SAR sem er að skoða hvað þarf að gera hérna til að hjól atvinnulífsins fari af alvöru í gang. SAR er einnig að vinna með fjölmörgum aðilum að undirbúningi að svokölluðu Norðurslóðaverkefni. Fyrir skömmu var skrifað undir samstarfsyfirlýsingu milli SAR, Atvinnuþróunarfélagsins Heklunnar og Atvinnuþróunarfélags Eyfirðinga um samvinnu vegna verkefna á Norðurslóðum. SAR er jafnframt að vinna með ISAVIA og Heklunni að undirbúningi verkefna sem snúa að Norðurslóðum.
Guðmundur segir að á heimasíðu SAR, sar.is, muni þar koma fram þau verkefni sem verið er að undirbúa. Einnig sé mikill áhugi á að koma á útboðsvakt þar sem bæði einkaaðilar og opinberir aðilar svo sem sveitarfélögin geti auglýst þau útboð sem framundan eru.
„Við hvetjum fólk til að skoða reglulega sar.is og fá upplýsingar um hvað við erum að gera. Við munum vera með nýjustu tíðindi um gang mála á síðunni,“ sagði Guðmundur Pétursson.