Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sandvík lokað í 3 mánuði
Mánudagur 27. júní 2005 kl. 16:35

Sandvík lokað í 3 mánuði

Reykjanesbær hefur veitt leyfi til kvikmyndatöku í Sandvík vegna kvikmyndarinnar Flags of our Fathers í leikstjórn Clint Eastwood sem byggð er á samnefndri sögu um eina þekktustu orrustu síðari heimsstyrjaldarinnar á japönsku eyjunni Iwo Jima í Kyrrahafinu.

Aðgangur að ströndinni verður lokaður á meðan á kvikmyndatökum stendur eða frá 21. júní til 20. september og verða öryggisverðir á öllum aðkomuleiðum til að koma í veg fyrir óviðkomandi umferð á vinnusvæðum og tökustað hverju sinni.

Atriðin sem verða kvikmynduð í Sandvík fjalla um landgöngu bandarískra hersveita á strönd Iwo Jima. Þau innihalda m.a. byssuhvelli, sprengingar, hjólabáta, landgöngupramma og skriðdreka en alls munu um 650 manns koma að þeim. Fulltrúar framleiðanda Malpaso Productions hafa þegar komið tvisvar til landsins til að skoða aðstæður og voru Stefán Benediktsson frá Umhverfisstofnun og dr. Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins með í för og til ráðgjafar. Breyta þarf lögun fjörukambsins fyrir kvikmyndatökuna.

Ýta þarf upp sandöldu frá háflæðismörkun og verður hún 4,5 metrar á hæð, 300 metra löng og 150 metra breið. Þessari sandöldu verður viðhaldið á meðan á kvikmyndatökum stendur en eftir að tökum lýkur verður ströndin færð aftur í upprunalegt horf.Á svæðinu að baki núverandi fjörukambs verða tekin upp bardagaatriði. Fyrir þau atriði þarf að grafa holur og svíða gróður. Stór herflutningatæki verða notuð á svæðinu og á ströndinni. Grafnar verða holur til að líkja eftir sprengjugígum eftir fallbyssuárásir. Að auki verða skotgrafir grafnar í sandinn á ýmsum stöðum.

Uppgræðsla verður í höndum Landgræðslu ríkisins í umsjón dr. Andréss Arnalds samkvæmt samningi að upphæð kr. 10.850.000 kr. og verður fjármagnið notað til þess að græða upp land við Sandvík og sinna eftirliti með tökustað. Fulltrúi frá Umhverfisstofnun verður einnig á svæðinu við eftirlit með tökustað. Allt rusl og úrgangur verður fjarlægt daglega. Sérstaklega verður gætt að leikmunum sem gætu fokið í sterkum vindi eða grafist í sandi. Þá verða settar upp vinnubúðir á svæðinu með hreinlætisaðstöðu og veitingaaðstöðu. +

Texti: reykjanesbær.is

VF-mynd/Hilmar Bragi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024